Innlent

Innantómt loforð um þjóðaratkvæði

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Björg Thorarensen, prófessor í lögum við Háskóla Íslands.
Björg Thorarensen, prófessor í lögum við Háskóla Íslands.
Þingsályktunartillaga ríkisstjórnarinnar um að draga til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu bindur ekki hendur næstu ríkisstjórnar eða næsta þings á einn eða annan hátt segja lagaprófessorarnir Björg Thorarensen og Ragnhildur Helgadóttir.

Þingið 2009 sótti um aðild að ESB með þingsályktunartillögu og það þing sem nú situr getur á sama hátt ákveðið að falla frá málinu með þingsályktunartillögu.

„Þingsályktun er í raun ekkert annað en viljayfirlýsing frá þinginu en hefur ekki lagalegt gildi,“ segir Ragnhildur.

Í þingsályktunartillögunni segir að draga eigi til baka aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu og að ekki skuli sótt um aðild á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort þjóðin stefni að aðild að Evrópusambandinu.

„Þingsályktunartillagan er í raun ekki annað en pólitísk yfirlýsing. Ef það ætti að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla getur hún aldrei orðið annað en ráðgefandi. Það þyrfti stjórnarskrárbreytingu til að hún yrði bindandi,“ segir Björg.

Hún segir að það þing sem nú situr hafi ekki vald til að binda hendur löggjafarþinga framtíðarinnar til að taka ákvarðanir um að sækja aðeins um aðild að ESB með skilyrði um undanfarandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Loforðið um þjóðaratkvæðagreiðslu er í raun innantómt,“ segir Björg.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.