Fótbolti

Leikmenn enska landsliðsins hitta kannski sálfræðing

Roy Hodgson.
Roy Hodgson. vísir/getty
Landsliðsþjálfari Englands, Roy Hodgson, er farinn að hugsa um sumarið en þá verður hann með lið sitt á HM í Brasilíu.

Englendingar hafa oft farið illa út úr vítakeppnum á stórmótum. Í raun hefur liðið fallið úr leik sex sinnum á síðustu tíu stórmótum eftir vítakeppni.

Hodgson ætlar því að huga að andlegu hliðinni fari svo að lið hans lendi enn eina ferðina í vítakeppni á stórmóti.

"Við erum með nokkrar vítaskyttur sem hafa mikið sjálfstraust. Við erum líka með nokkrar sem hafa ekki eins mikið sjálfstraust. Við þurfum að sjá til þess að þeir séu eins vel undirbúnir og mögulegt er," sagði Hodgson.

Enska liðið undir stjórn Hodgson tapaði gegn Ítölum í vítakeppni á EM 2012 og Hodgson íhugar nú að leita á náðir íþróttasálfræðinga.

"Þetta snýst um karakter leikmanna og sjálfstraust þeirra. Leikmenn verða að halda ró sinni og ef íþróttasálfræðingur getur hjálpað til þar þá yrði ég mjög ánægður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×