Skíðasamband Íslands fór í dag yfir vetrarstarf sambandsins á blaðamannafundi og um leið voru landsliðshópar í alpagreinum og í skíðagöngu kynntir betur fyrir fjölmiðlamönnum.
Á fundinum kom meðal annars fram að landsliðsfólkið í alpagreinum munu nú keppa í al-íslenskum fatnaði. Henson hefur séð um hönnun og framleiðslu á keppnisgalla landsliðsfólksins sem er í íslensku fánalitunum og merktur Íslandi. 66°Norður sér áfram um utanyfirfatnað íslenska landsliðsfólksins.
„Við erum gríðarlega ánægð að vera með íslenskan fatnað. Við höfum lengi verið með samning við 66°Norður sem hafa verið mjög góðir styrktaraðilar fyrir okkur," sagði Jón Viðar Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands á fundinum.
„Fyrir um einu og hálfu ári síðan þá fórum við í þróunarstarf með Henson varðandi keppnisgallana. Núna erum við klárir með keppnisgallann fyrir alpagreinaranar og verður vonandi tilbúinn líka fyrir skíðagöngufólkið fljótlega," sagði Jón Viðar.
„Fatnaðurinn fyrir alpagreinafólkið okkar í vetur er því al-íslenskur og við erum gríðarlega stolt af því," sagði Jón Viðar.

