Innlent

Sex milljónir fyrir minni mengun

Freyr Bjarnason skrifar
Strætó bs. mun í framtíðinni nota vetnismeðhöndlaða lífræna olíu frá Olís.
Strætó bs. mun í framtíðinni nota vetnismeðhöndlaða lífræna olíu frá Olís. Fréttablaðið/Vilhelm
 „Þegar menn íhuga ávinninginn töldum við að það væri vel þess virði að stíga þetta skref. Okkur er umhugað að draga eins mikið úr okkar mengun og kostur er,“ segir Kolbeinn Óttarsson Proppé, upplýsingafulltrúi Strætó bs.

Fyrirtækið hefur samið við nýjan eldsneytisbirgja, Olís, sem fyrstur aðila bauð upp á íblöndun lífrænnar olíu sem staðlaða vöru. Um er að ræða svokallaða vetnismeðhöndlaða lífræna olíu (VLO) sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda um fimm prósent.

Við lok síðasta árs var einnig gengið til samninga við Olís um aukið íblöndunarhlutfall sem mun draga enn frekar úr losun gróðurhúsalofttegunda, eða um 10,5 prósent.

Að sögn Kolbeins nemur kostnaðurinn við þessa breytingu sex milljónum króna á ári. „Við erum samfélagslega ábyrgt fyrirtæki og teljum að við eigum að gera eins og hægt er til að draga úr þeirri mengun sem óhjákvæmilega fylgir okkar starfsemi. Þess vegna stigum við þetta aukaskref og við erum mjög ánægðir með það,“ segir hann.

„Við viljum benda öðrum fyrirtækjum á að þetta er auðveld leið til að draga úr mengun en vissulega fylgir henni aukinn kostnaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×