Innlent

Fleiri lýsa ofbeldi af hendi Skeggja

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Með Skeggja Ásbjarnarsyni er genginn sérstakur persónuleiki, fjölhæfur gáfumaður, skyldurækinn og traustur, sem aldrei mátti vamm sitt vita. Svona byrjar minningagrein Skeggja Ásbjarnarsonar, fyrrverandi kennara í Laugarnesskóla. Skeggi er í nýútgefinni minningabók sakaður um að hafa misnotað nemendur sína með ýmsum hætti.

Þrír menn hafa stigið fram og greina frá sögu sinni í þætti Jóns Ársæls, Sjálfstæðu fólki, næstkomandi sunnudag.

Lýsingar þessara manna á framferði hans eru átakanlegar og greina mennirnir frá kynferðisofbeldi sem þeir urðu fyrir af hálfu Skeggja og afleiðingum þess. Þeir greina frá því að ofbeldið hafi ekki einungis verið kynferðislegt heldur hafi það einnig verið andlegt og líkamlegt. Þeim var slegið utan í veggi og níðst á þeim á allra handa máta.

Skeggi var vinsæll maður og vinamargur og voru margir stoltir af því að vera í Skeggjabekk, eins og það var kallað. Ásamt kennarastarfinu var hann með útvarpsþætti fyrir börn á RÚV og var verkstjóri í unglingavinnunni í Reykjavík á sumrin. Hann var ógiftur og barnlaus.

„Hann stoppaði fyrir aftan suma strákana og svo sá maður bara hendina á honum fara inn í buxnaklaufina þeirra,“ segir Björg Guðrún Gísladóttir sem nýverið gaf út minningabókina Hljóðið í nóttinni sem er um hyldjúpa sorg og óbilandi lífskraft í skugga sárrar fátæktar. Hún er jafnframt gestur í þættinum Sjálfstætt fólk, sem verður í opinni dagskrá á Stöð 2 á morgun klukkan 19.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×