Sport

Sif: Við látum ekkert koma okkur úr jafnvægi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sif Pálsdóttir og stelpurnar í dansinum í gær.
Sif Pálsdóttir og stelpurnar í dansinum í gær. Vísir/Valli
Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum tryggði sér örugglega sæti í úrslitum EM í hópfimleikum í gær en liðið endaði í 2. sæti í undankeppninni.

„Tilfinningin er bara mjög góð. Það er fullt sem við hefðum getað gert betur sem er snilld fyrir laugardaginn og við erum bara ánægðar með daginn," sagði Sif Pálsdóttir í viðtali á fésbókarsíðu Fimleikasambands Íslands.

Íslenska liðið varð fyrir smá áfalli þegar Valgerður Sigfinnsdóttir meiddist á fyrsta áhaldinu í undankeppninni í gær.  Valgerður Sigurfinnsdóttir snéri á sér ökklann í lokastökkinu.

„Við erum með svo góða breidd í þessu liði þannig að við erum bara með manneskju sem kemur inn í staðinn. Auðvitað er leiðinlegt að hún datt út en við höfum fulla trú að þetta verði komið á laugardaginn," sagði Sif.

Meiðsli Valgerðar urðu þá til þess að íslenska liðið var einum færra í dansinum. „Við látum ekkert koma okkur úr jafnvægi. Það er bara þannig. Við erum líka orðnar svo sjóaðar í þessu," sagði Sif hlæjandi.

Lokaáhaldið hjá Íslandi var dýna en það gegnu fyrstu tvær umferðirnar ekki nógu vel. Þegar kom að þriðju umferðinni virtist liði hafa náð að núllstilla sig og negldi öll stökkin.

„Auðvitað hefðum við viljað lenda fleiri stökkum og það er bara vonandi að enginn hafi meitt sig í þessum lendingum. Það er gott að hafa eitthvað til þess að bæta fyrir laugardaginn því við ætluðum ekki að eiga fullkominn dag í dag heldur á laugardaginn," sagði Sif.

Það má sjá allt viðtalið við Sif hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Við njótum hverrar sekúndu

Íslenska kvennalandsliðið í hópfimleikum hefur keppni á Evrópumeistaramótinu í dag en mótið fer fram í Laugardalshöll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×