„Ég held að þessar 3 milljónir sem verið er að bjóða starfsfólki ef það flytur til Akureyrar sé sá verðmiði sem ráðuneytið setur ef það þyrfti að þjálfa upp nýtt starfsfólk fyrir Fiskistofu. Ég held reyndar að þetta sé mjög vanreiknað hjá ráðuneytinu og að það muni kosta mun meira en 3 milljónir að þjálfa upp einn nýjan starfsmann hjá Fiskistofu. Flutningur Fiskistofu mun því kosta mun meira ef starfsfólkið flytur ekki með,“ segir Þórarinn.
Þórarinn segir að hafa verði í huga þegar talað er um flutning Fiskistofu að sé mjög sérhæft starfsfólk sem hafi mikla sérþekkingu á kvótakerfinu. Það sé því líklegt að það muni taka langan tíma að þjálfa upp nýtt starfsfólk.
„Allt regluverkið í kringum kvótalögin og framkvæmd þeirra er mjög mikill frumskógur. Það er enginn sem þekkir það betur en starfsfólk Fiskistofu enda er hlutverk stofnunarinnar að fylgjast með því að farið sé að kvótalögunum.“
Þórarinn segir Fiskistofu sinna flóknum verkefnum sem snúa meðal annars að útgerðunum, fiskveiðiheimildum og flutningi á aflaheimildum.

Þórarinn segist ekki muna til þess að starfsfólki hafi áður verið greitt fyrir að flytja á milli landshluta vegna starfs síns. Í þessu tilfelli sé áætlað að flytja sérþekkingu milli landshluta og það kosti einfaldlega mikla peninga.
Hvað varðar biðlaunarétt starfsfólks segir Þórarinn ágreining uppi um það. Ákvæði í lögum um opinbera starfsmenn kveði á um að ef starf sé lagt niður eigi starfsmaðurinn rétt á biðlaunum, en þetta á einungis við um starfsfólk sem tók til starfa fyrir 1. júlí 1996.
„Við hjá stéttarfélaginu túlkum þetta þannig að þegar störf séu flutt á milli landshluta þá sé í raun verið að leggja þau niður því fólki er auðvitað gert ókleift að sækja starf sitt. Mannauðsskrifstofa fjármálaráðuneytisins lítur hins vegar ekki svo á að um niðurlagningu starfa sé að ræða. Hvernig fer með biðlaunaréttinn liggur því ekki fyrir.“