Lífið

Jordan Belfort fékk einkakennslu í Kópavogi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jordan Belfort (til vinstri) ásamt tenniskappanum Magnúsi Gunnarssyni.
Jordan Belfort (til vinstri) ásamt tenniskappanum Magnúsi Gunnarssyni.
Ungir tennisiðkendur ráku upp stór augu í Tennishöllinni í Kópavogi þegar Jordan Belfort var þangað mættur með skýrt markmið. Að bæta sig í tennis.

„Þrátt fyrir allt þá virkar hann bara vingjarnlegur. Hann spjallaði við krakkana sem voru hérna á æfingu og hafði ekkert á móti myndatökum,“ segir tennisþjálfarinn Milan Kosicky sem tók Belfort í einkatíma síðdegis. Hann segir Belfort hafa verið nokkuð sleipan spilara.

„Hann hefur spilað við góða leikmenn og lét mig alveg hafa fyrir hlutunum,“ segir Milan sem er Slóvaki sem starfað hefur sem tennisþjálfari hér á landi undanfarin ár. Hann segir ekki hafa verið neitt mál að taka Belfort í tíma enda hafi hann áður þjálfað ytra á stöðum sem sóttir voru af stjörnunum. Belfort hafi verið smá tíma að venjast undirlaginu í Tennishöllinni en fljótlega náð tökum á því. Hafi hann verið sáttur við aðstæður í Kópavoginum.

Belfort, sem öðlast hefur heimsfrægð í kjölfar kvikmyndinnar Wolf of Wall Street, ferðast í dag um heiminn, flytur fyrirlestra og kynnir eigin sölutækni sem hann hefur einkaleyfi á. Hann heldur fyrirlestur í Háskólabíó þann 6. maí en hátt miðaverð hefur vakið athygli. Miðar í sæti framarlega í bíóinu kosta 50 þúsund krónur en aftar 40 þúsund krónur.

Tenniskappinn Magnús Gunnarsson, sem einnig starfar sem þjálfari í Tennishöllinni í Kópavogi, nýtti tækifærið og fékk mynd af sér og Belfort. Hann tekur undir orð Milan að Belfort hafi verið nokkuð liðtækur og tækni hans sérstaklega góð.

Belfort hafi spjallað mikið við nærstadda og meðal annars sagst myndu spila við Svisslendinginn Roger Federer og Spánverjann Rafael Nadal í næsta mánuði.


Tengdar fréttir

Miðar á úlfinn kosta 50 þúsund krónur

Jordan Belfort, einnig þekktur sem úlfurinn á Wall Street, mun halda sölufyrirlestur á Íslandi í maí. Miðarnir munu kosta á milli 39.900 og 49.900 krónur.

Búið að selja hundruð miða á Jordan Belfort

"Það eru fyrirtæki að kaupa miða, stórar söludeildir, háskólafólk og hinir og þessir úr hinum ýmsu geirum,“ segir Jón Gunnar Geirdal sem stendur fyrir komu Jordan Belfort til Íslands í maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.