Innlent

Búið að selja hundruð miða á Jordan Belfort

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Getty
„Miðasalan gengur bara mjög vel. Það er búið að selja miða nú í tíu daga. Ég gef ekki upp neina nákvæma tölu en þetta hefur farið mun betur af stað en við þorðum að vona,“ segir athafnamaðurinn Jón Gunnar Geirdal sem stendur að komu Jordan Belfort til Íslands í maí.

Belfort, sem öðlast hefur heimsfrægð í kjölfar kvikmyndinnar Wolf of Wall Street, ferðast í dag um heiminn, flytur fyrirlestra og kynnir eigin sölutækni sem hann hefur einkaleyfi á.

Um tvískipta dagskrá verður að ræða í Háskólabíó þann 6. maí.

„Fyrst er fyrirlestur og svo þriggja tíma sölunámskeið þar sem hann fer yfir þessa sölutækni sína, „straight line persuasion“,“ segir Jón Gunnar.  Námskeiðið fer fram í stóra salnum í Háskólabíó. Salurinn tekur um 950 manns í sæti og er miðaverð annars vegar 49.900 fyrir fremstu ellefu sætaraðirnar en 39.900 fyrir raðirnar þar fyrir aftan.

Aðspurður um nánari upplýsingar um gengi miðasölu, hvort búið sé að selja tugi eða hundruð miða svarar Jón Gunnar: „Það er búið að selja hundruð miða.“

Jón Gunnar segist hafa verið vel meðvitaður um að hann væri að flytja inn umdeildan mann. Í því ljósi komi gott gengi í miðasölu sérstaklega á óvart.

„Hins vegar er forvitni fólks mikil og við bindum miklar vonir við að það verði mjög góð mæting,“ segir Jón Gunnar. Hann bendir á að nægur tími sé til stefnu enda námskeiðið ekki fyrr en 6. maí.  Fólk úr öllum áttum sé búið að kaupa sér miða.

„Það eru fyrirtæki að kaupa miða, stórar söludeildir, háskólafólk og hinir og þessir úr hinum ýmsu geirum.“

Jordan Belfort.Vísir/Getty
Vann með upplýsingar að utan

Koma Belfort hingað til lands hefur sætt töluverðri gagnrýni. Jón Gunnar segist ekki ætla að svara fyrir Belfort sem muni gera það sjálfur við íslenska fjölmiðla næstu vikur.

„Þar ætti hann að geta svarað einhverjum gagnrýnisröddum og þeim spurningum sem hafa vaknað síðustu daga,“ segir Jón Gunnar.

Viðskiptablaðið vakti athygli á því á dögunum að stórfyrirtæki, sem Belfort hafði tengt kynningarferð sína við í auglýsingaefni, hefði svarið fyrir tengsl við Belfort. Um var að ræða stórfyrirtækin Deutsche Bank og Hewlett Packard. Jón Gunnar segir Belfort hljóta að geta svarað þeirri gagnrýni.

„Þetta er auðvitað efni sem ég fékk að utan frá þeim. Ég er afskaplega einfaldur maður og nýti það efni sem ég fæ að utan sem er staðfest efni frá þessum aðilum. Allt annað verður Belfort að svara fyrir í viðtölum. Ég get ekki svarað fyrir hann og hans fólk.“

Jón Gunnar bendir á að Belfort sé ekki aðeins að kenna sölutækni sína.

„Saga hans er líka víti til varnaðar. Hann flakkar um heiminn og ef eitthvað er hefði hann átt að koma hingað nokkrum árum fyrir hrun og spjalla við menn,“ segir Jón Gunnar. Saga Belfort sé til lærdóms. „Það er eitthvað sem segir mér að við hefðum haft gott af því að heyra hana aðeins fyrr.“

Belfort ræðir við ástralska íþróttakappa.Vísir/Getty
Ekki kennsla í djammi og svikum

Aðspurður hvort sölutækni Belfort, sem byggði á því að halda sannleik frá saklausu fólki og hreinlega ljúga að því, sé eitthvað til að kenna öðrum segir Jón Gunnar Belfort ekki kominn hingað til lands til að kenna Íslendingum hvernig eigi að hegða sér í fjármálalífinu.

„Það sem gerðist í myndinni er eitthvað sem gerðist fyrir fjölmörgum árum. Hann hefur verið laus úr fangelsi í 16 eða 17 ár eða þar um bil,“ segir Jón Gunnar. Fólk tengi Belfort eðlilega við myndina sem tugir þúsunda Íslendinga hafi séð í bíó.

„Það er líf sem hann lifði fyrir 15-20 árum. Hann er ekki að koma til að kenna okkur að djamma eða ræna, guð minn almáttugur. Það sem er líka athyglisvert er þessi saga eftir að hann losnar úr fangelsi og hvar hann er í dag. Hann er fyrrum glæpamaður, fær dóm og situr hann svo sannarlega af sér. Svo borgar hann sína sekt sem ég gef mér að hann verði að borga til æviloka.“

Breyttur maður

Jón Gunnar bendir á að sú sölutækni sem Belfort kenni í dag sé annars eðlis en sú sem hann lagði upp með og var dæmdur fyrir á sínum tíma.

„Sölutæknin byggir á heiðarleika og sannleik, að fólk sé heiðarlegt. Þetta snýst ekki um svik og pretti. Ég gef mér að flestir sölumenn gætu snúið tækninni sinni yfir í það að fara og svíkja fólk. Jordan Belfort stendur fyrir allt annað í dag.“

Belfort sé hins vegar sjálfur best til þess fallinn að svara fyrir gagnrýni og muni gera það í samtölum við íslenska miðla á næstu vikum.


Tengdar fréttir

Miðar á úlfinn kosta 50 þúsund krónur

Jordan Belfort, einnig þekktur sem úlfurinn á Wall Street, mun halda sölufyrirlestur á Íslandi í maí. Miðarnir munu kosta á milli 39.900 og 49.900 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×