Sala á Viagra hefur aukist um 120% á síðustu fjórum árum.
„Spurðu hvaða framhaldsskólanema sem er, það hafa allir heyrt um Kamagra. Ef þeir hafa ekki prófað það, þekkja þeir einhvern sem er að nota það eða selja það,“ segir Sigga Dögg.
Hún segir þetta varhugaverða þróun, stinningarlyf hafi aukaverkanir og ekki eigi að drekka áfengi samhliða því að taka lyfin - og setur spurningamerki við tilgang þess.
Salan margfaldast
Sala á stinningarlyfinu Viagra hefur margfaldast á undanförnum árum. Árið 2009 voru rúmlega 82 þúsund skammtar af lyfinu seldir. Í fyrra, fjórum árum seinna, seldust rúmlega 180 þúsund skammtar; 120 prósenta aukning. Sala á Viagra á Íslandi er sambærileg tölum frá Danmörku. Salan, sé miðað við höfðatölu, er mjög lík hér og í Danmörku.

Sigga Dögg segir þetta vera orðið vandamál. „Já, ég hef margoft heyrt framhaldsskólanema tala um að þeir eigi í vandræðum með að ná honum upp eftir djammið og þá séu stinningarlyf svarið. Þeim finnst það eftirsóknarvert að vera með holdris í lengri, lengri tíma. Svo hafa stelpur líka verið að prófa þetta. Einhverjar hafa talað um Viagra geti gert þær graðari eða næmari, eða bætt fullnæginu þeirra.“
Í því samhengi bendir Sigga Dögg á að í hinum vinsæla gamanþætti Sex and the City sé taki ein aðalpersónan, hin geðþekka Samantha, Viagra með þeim afleiðingum að fullnæging hennar verður afar tilþrifamikil. „Já, Sex and the City gerði þetta ódauðlegt. Stúlkum þykir þetta orðið sport. Það eru til bleikar töflur sem þær taka.“
Hér að neðan má sjá atriðið úr Sex and the City.
Hættulegt að blanda þessu við áfengi
Sigga Dögg bendir á að það geti reynst varasamt að taka stinningarlyf ofan í áfengi. „Svo eru einhverjir kannski að blanda áfenginu sínu í orkudrykki og þá verður þetta mjög varhugavert.“
Þekktar aukaverkanir við notkun á Viagra eru höfuðverkur, meltingatruflanir, nefstífla, yfirlið, hjarsláttatruflanir, langvarandi stinning og fleira. Aukaverkanirnar tengjast stærð skammtsins sem er tekinn.
Sigga Dögg setur spurningamerki við þessar hugmyndir að taka stinningarlyf til þess að geta sofið hjá eftir að hafa farið út á lífið. „Kynlíf á ekki að snúast um að endast lengi. Það er ekki hollt að koma heim af djamminu og þurfa að taka pillur til að ná honum upp. Þá eru engar forsendur til samræðis.“
Sigga Dögg fjallar nánar um þetta í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu á morgun.