Innlent

Eitt og hálft kíló af mat á 225 sekúndum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Hin árlega kappátskeppni Priksins fór fram í dag. 22ja ára gamall pizzugerðarmaður stóð uppi sem sigurvegari og hafði verulega áhyggjur af líkamlegri heilsu að keppni lokinni.

Það var ekkert smáræði sem keppendur þurftu að sporðrenna í Big Kahuna kappátkeppninni á Prikinu í Bankastræti í dag. Risastór hamborgari, franskar og mjólkurhristingur en alls vó máltíðin eitt og hálft kíló.

Þetta er í sjötta sinn sem Big Kahuna-keppnin fer fram og var stemmningin á Prikinu mikil. Keppendur fengu ekki háa einkunn fyrir borðsiði en stefndu að því að klára hamborgarann, sem er hlaðinn öllu því sem fyrirfinnst á matseðli Priksins, ásamt meðlæti á sem skemmstum tíma. Metið í keppninni er þrjá mínútur og 17 sekúndur sem verður að teljast tilkomumikið.

Sigurvegarinn í ár var Björn Ingvi Tyler Björnsson, 22 ára Reykvíkingur. Það tók hann aðeins þrjár mínútur og 45 sekúndur að klára máltíðina. Hann var spurður hvernig honum liði að keppni lokinni.

„Ég er alveg að springa en líður mjög vel. Ég væri alveg til í aðra máltíð," segir Björn Ingvi. Hann kveðst alltaf hafa borðað mikið. Sigurinn hafi ekki komið á óvart enda mikill mathákur.

Nánar í myndbandinu hér að ofan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.