Innlent

„Ekki eins og Kári Stefánsson hafi sest niður og ætlað að kortleggja Eldjárn fjölskylduna“

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Listamenn hafa fengið bréf frá Íslenskri erfðagreiningu.
Listamenn hafa fengið bréf frá Íslenskri erfðagreiningu.
„Þetta tengist ekki okkar fjölskyldu þó það sé kannski það fyrsta sem maður heldur þegar maður sér þetta,“ segir Úlfur Eldjárn sem hefur verið boðið að taka þátt í rannsókn á vegum Íslenskrar erfðagreiningar um hvort listhneigð gangi í erfðir.

Þó Úlfur komi úr listrænni fjölskyldu var hann ekki handvalinn í úrtakið sem rannsóknin nær til. „Nei, það er ekki eins og Kári Stefánsson hafi sest niður og ætlað að kortleggja Eldjárn fjölskylduna. Það er útskýrt í mjög nákvæmu máli aftan á bréfinu hvernig úrtakið er fengið. Ég er í FÍH og er í FTT og þannig kem ég inn í þetta.“

Úlfur er ánægður með framtak Íslenskrar erfagreiningar. „Já, ég held að þetta sé í raun og veru góð rannsókn. Það sem er spennandi er að kannski kemur eitthvað út úr þessu sem útskýrir hvernig listhneigð virkar.“



Um 4500 manns hefur verið sendur spurningalisti sem á að veita svör við spurningum rannsakenda. Þeim sem boðið hefur verið að taka þátt í rannsókninni eru dansarar, tónlistarfólk, myndlistarfólk, leikarar, skáld auk þeirra sem stunda skák.

Í bréfi til listamannanna sem var boðið að taka þátt í rannsókninni segir:

„Rannsókn á erfðum heilastarfsemi hafa löngum einblínt á frávik í formi sjúkdóma (t.d. þunglyndi, kvíða, hegðunarvandamála.) Lítið er hinsvegar vitað um áhrif erfða á almenna hugræna hugræna úrvinnslu og sköpunargleði.

Tilgangur þessarar rannsóknar er að afla gagna sem munu gera rannsakendum klefit að skilgreina erfðabreytileika sem eru ekki sjúkdómsvandi eða hamlandi í daglegu lífi, heldur varpa mögulega ljósi á hina miklu breidd áhugasviða og hæfileika sem fyrirfinnst meðal einstaklinga. Ein af birtingamyndum þessa er listhneigð og listsköpun á mismunandi sviðum, sem oft liggur í ættum.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, neitaði að tjá sig um málið fyrr en niðurstöður rannsóknarinnar liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×