Íslenski boltinn

Elfar skaut Blikum áfram | FH vann Stjörnuna í Garðabænum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Elfar Árni Aðalsteinsson fagnar marki með Breiðabliki.
Elfar Árni Aðalsteinsson fagnar marki með Breiðabliki. Vísir/Valli

Þórsarar voru fyrsta liðið til að komast í undanúrslit A-deildar Lengjubikarsins í fótbolta í kvöld þegar þeir lögðu Keflvíkinga í vítaspyrnukeppni í Boganum á Akureyri.

Keflavík byrjaði mun betur og skoraði tvö mörkin á fyrstu sex mínútum leiksins en þau gerðu Elías Már Ómarsson og Hörður Sveinsson.

Gestirnir misstu mann af velli á 19. mínútu þegar Halldór Kristinn Halldórsson fékk beint rautt spjald og Þórður Birgisson minnkaði muninn, 2-1, fyrir Þór á 37. mínútu.

Svo virtist sem tíu Keflvíkingar ætluðu að halda út og komast í undanúrslitin en Ármann Pétur Ævarsson kom Þórsurum í framlengingu með marki úr vítaspyrnu á fyrstu mínútu í uppbótartíma, 2-1.

Eftir markalausa framlengingu var gripið til vítaspyrnukeppni sem Þór vann, 4-3, og leikinn, 6-5.

Í Garðabænum mættust Stjarnan og FH þar sem FH tryggði sér farseðilinn í undanúrslitin með 2-1 sigri.

Markalaust var í hálfleik en Veigar Páll Gunnarsson kom Stjörnunni yfir á gervigrasinu í Garðabænum eftir tæpar þrjár mínútur í seinni hálfleik.

FH-ingar tryggðu sér sigurinn með tveimur mörkum á þriggja mínútna kafla en Ingimundur Níels Óskarsson jafnaði metin á 66. mínútu, 1-1, og Sam Hewson, sem gekk í raðir FH frá Fram í vetur, skoraði sigurmarkið á 69. mínútu.

Guðjón Árni Antoníusson var rekinn af velli hjá FH og verður ekki með í undanúrslitaleiknum gegn annaðhvort KR eða Fylki sem mætast á morgun.

Þórsarar mæta aftur á móti Breiðabliki sem unnu Pepsi-deildar nýliða Víkings, 1-0, í Fífunni í Kópavogi.

Þar skoraði Húsvíkingurinn Elfar Árni Aðalsteinsson eina mark leiksins á 76. mínútu og kom Breiðabliki í undanúrslitin.

Undanúrslitin fara á mánudaginn kemur.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.