Innlent

Neyðarúrræði að setja lög á Herjólfsdeiluna

Höskuldur Kári Schram skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra segir að það hafi verið neyðarúrræði að setja lög á verkfall undirmanna á Herjólfi.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun frumvarp innanríkisráðherra um að fresta verkfallsaðgerðum undirmanna á Herjólfi til 15. september. Verkfallsaðgerðir hófust í byrjun marsmánaðar og hafa valdið verulegum truflunum á samgöngum milli lands og Eyja.

„Við teljum einfaldlega að staðan sé orðin þannig í Vestmannaeyjum að það sé ekki hægt að bíða lengur. Þetta er auðvitað alltaf erfið ákvörðun en að þessu sinni ráða almanna- og öryggishagsmunir og þeir kalla á að löggjafinn komi að málinu,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir innanrikisráðherra.

Hanna Birna segir að ríkisstjórnin hafi ákveðið að fara mildari leið. „Við hefðum getað farið svokallaða gerðardómsleið, sem hefur verið gert í gegnum tíðina, en við ákváðum að fara þessa mildari leið og vonum innilega að það takist að leysa málið á þessum tíma."

Hanna Birna segir að það hafi verið neyðarúrræði að fara þessa leið. „Þetta er alltaf algjört neyðarúrræði. Þetta er búið að standa í mánuð og farið að valda verulegum erfiðleikum í þessu samfélagi. Þetta er þjóðvegurinn til Eyja og hann er búinn að vera rofinn í langan tíma," segir Hanna Birna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×