Innlent

„Þetta, hæstvirtur ráðherra, er fáránlega ósanngjarnt“

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
„Þetta er réttlæti á haus. Þeir tekjuhærri fá meiri skattaafslátt en hinir tekjuhærri. Velferðarsamfélag snýst um hið gagnstæða,“ sagði Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag og beindi spurningu sinni til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

Helgi Hjörvar, Katrín Jakobsdóttir og Árni Páll Árnason gagnrýndu öll að þessi leið kynni að nýtast þeim tekjuhærri hvað mest og þeim tekjulægri hvað minnst.

Alþingismenn geti fullnýtt sína heimild

Helgi bendir á að alþingismaður með 700 þúsund krónur á mánuði geti fullnýtt þessa heimild og fái út úr því 600 þúsund króna skattafafslátt. Á sama tíma fái einhleypingur með meðaltekjur, um 400 þúsund krónur á mánuði einungis 300 þúsund króna skattaafslátt. „Þetta, hæstvirtur ráðherra, er fáránlega ósanngjarnt.“

Bjarni hafnar þessu. „Þvert á móti. Þetta er eðlilegt þegar horft er til þess hvernig skuldir eru almennt í samhengi við tekjur.“

Hvað með valfrelsi hvers og eins?

Helgi Hjörvar lýkur máli sínu á að spyrja fjármála- og efnahagsráðherra um valfrelsi hvers og eins þegar kemur að ráðstöfun séreignarsparnaðar. Hversvegna það sé að fólk geti ekki nýtt hana í að til dæmis að fjárfesta í menntun.

„Það er fullt valfrelsi til staðar og höfum stutt það. Að því gefnu að fólk greiði skatt af honum,“ svarar Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×