Innlent

„Kærkomið tækifæri til að upplifa eitthvað nýtt."

Birta Björnsdóttir skrifar
Í dag hófst miðasala á flesta viðburði Listahátíðar í Reykjavík sem fram fer dagana 22. maí til 5. júní. Hanna Styrmisdóttir, listrænn stjórnandi hátíðarinnar, kynnti helstu viðburði hennar á blaðamannafundi fyrr í dag.

„Listahátíð er hátíð allra lista og hún hefur ákveðnu hlutverki að gegna. Meðal annars að styðja við og efla nýsköpun og tilurð nýrra verka sem og að flytja hingað það besta af hinu alþjóðlega sviði, sem er auðvitað býsna stórt," segir Hanna.

„Það finna ekki allir alltaf eitthvað sem þeir hafa áhuga á, en það finna vonandi allir einhverntíman eitthvað á Listahátíð sem þeir tengja við og hafa áhuga á. Svo er Listahátíð líka kærkomið tækifæri til að sjá eitthvað sem maður myndi aldrei sjá annars."

Hátíðin ber í ár yfirskriftina Ekki lokið og á henni rúmast fjölbreytt dagskrá sem aðgengileg er á heimasíðu hátíðarinnar. Það vekur athygli að lokaverk Listahátíðar er háð mildi veðurguðanna.

„Það er verk Ragnheiðar Hörpu Leifsdóttur, sem heitir Flugrákir „...og veröldin var sungin fram". Það er flutt af hluta til af listflugvélum. Það er því einungis hægt að flytja það við mjög sérstakar veðuraðstæður, sem til dæmis voru ekki til staðar á síðustu Listahátíð,“ segir Hanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×