Innlent

Rúmlega sex páskaegg á mann

Birta Björnsdóttir skrifar
Nú eru páskarnir á næsta leyti og páskaegg farin að fylla hillur verslana. Þá er ekki úr vegi að bregða upp neytendagleraugunum og kanna hvað páskaeggin kosta.

Samkvæmt verðlagskönnun ASÍ var Bónus oftast með lægsta verðið á þeim eggjum sem skoðuð voru en Hagkaup oftast með hæsta verðið.

Úrvalið var hinsvegar ólíkt í verslununum en flest páskaeggin í könnuninni voru til í Hagkaupum og Fjarðarkaupum en fæst hjá Samkaupum-Úrvali og í Bónus.

Mestur var munurinn á páskaeggi númer 3 frá Nóa Siríus og Góu lakkríseggi númer 4, eða um 50%. Minnstu munaði hinsvegar á páskaeggjakörfu frá Nóa Siríus og páskaeggi frá sama framleiðanda númer 6, eða 9%.

Í samantekt Alþýðusambands Íslands kemur einnig fram að verð á páskaeggjum hefur hækkað mikið frá því í fyrra, mest um 28%. Allar verslanirnar sem heimsóttar voru höfðu hækkað verðið frá því í fyrra, nema Iceland sem hefur lækkað verð á flestum eggjum.

En hvað borðum við mikið landsmenn mikið af páskaeggjum?

Samkvæmt upplýsingum frá stærstu páskaeggjaframleiðendum landsins má áætla að Íslendingar borði um tvær milljónir páskaeggja af öllum stærðum og gerðum í ár. Það gera 6,2 páskaegg á hvern landsmann.

Þessi egg vega um það bil 150 tonn, sem reiknast vera tæplega hálft kíló af súkkulaði og sælgæti á hvern landsmann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×