Innlent

Hanna og Theodór komin með tilboð í hendurnar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Hanna María Karlsdóttir og Theódór Júlíusson, leikarar, eru komin með starfstilboð í hendurnar frá Borgarleikhúsinu og verður fundað um málið með fulltrúum Félags íslenskra leikara síðar í dag.

Nýráðinn leikhússtjóri Borgarleikhússins, Kristín Eysteinsdóttir, sagði þeim báðum upp í lok síðasta mánaðar vegna endurskipulagningar. Ákvörðun uppsagnanna sagði hún byggjast á faglegum og listrænum áherslum með tilliti til verkefnavals framundan.

Uppsagnirnar hafa vakið hörð viðbrögð meðal leikara enda um reynslumikla leikara að ræða sem eiga að baki áratuga farsælan feril.  Þau eru elstu leikarar Borgarleikhússins og stutt í að þau fari á eftirlaun. Sex nýir leikarar hafa verið ráðnir til Borgarleikhússins og eru það meðal annars Björn Thors og Hilmir Snær Guðnason.

Félag íslenskra leikara hefur samþykkt ályktun þar sem uppsögnum í Borgarleikhúsinu er harðlega mótmælt.

Félagið hefur boðað til fundar í dag í félagsheimili leikara klukkan 16.30.

Hér má sjá tilkynningu félagsins í heild sinni:

Stjórn Félags íslenskra leikara boðar hér með félagsmenn FÍL til fundar í félagsheimili leikara að Lindargötu 6 í dag, mánudaginn 7. april frá kl. 16.30 - 17.30.

Tilefni fundarins eru uppsagnir eldri leikara í Borgarleikhúsinu. Stjórn FÍL sendi í síðustu viku ályktun til stjórnenda og stjórnar LR þar sem uppsagnirnar eru harmaðar en við skynjum að það er þung undiralda í félaginu vegna málsins og viljum við boða til fundarins til að upplýsa félagsmenn um framvindu mála undanfarna viku og gefa fólki tækifæri til að tjá sig og sýna samstöðu í verki.

 

Vonum að sem flestir sjái sér fært að mæta þó fyrirvarinn sé stuttur.

 

Birna Hafstein formaður FÍL


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×