Innlent

Heppnasta þjóð í heimi með nágranna

Heimir Már Pétursson skrifar
Grænlenskir dagar hófust í Melabúðinni á fimmtudag bæði með kynningu á matarmenningu Grænlendinga og alls konar uppákomum. En í dag var boðið upp á grænlenska tónlist í Hörpu og ýmsir grænlenskir hönnunargripir voru sýndir. Sörine Kaspersen sem býr á Íslandi segir grænlenska list og hönnum yfirleitt tengjast náttúrunni.

Hún segir gaman bæði fyrir Grænlendinga og sem búa á Íslandi og fyrir Íslendinga að fá að kynna sér vandaðar vörur úr skinni frá heimalandi hennar, en margt mjög fallegra gripa voru til sýnis og sölu í Hörpu í dag.

Hrafn Jökulsson formaður Hróksins og félagar hans hafa verið duglegir við að breiða skáklistina út á Grænlandi. Hann segir hugmyndina að grænlenskum dögum hafa komið upp meðal grænlandsvina.

„Sem eru auðvitað fjölmargir og fer sífellt fjölgandi enda áhuginn á Grænlandi alltaf að aukast. Þannig að þessu koma Kalak vinafélag Íslands og Grænlands, Hrókurinn og grænlensk- íslenska viðskiptaráðið. Þannig að þetta eru svona menning, skák og viðskipti sem sameinuðust þarna um góðan málstað,“ segir Hrafn.

Á morgun verður grænlenskt skákmót sem hefst með trommudansi í Vin og á þriðjudag verður málþing í Norræna húsinu þar sem forsprakkar úr grænlensku og íslensku viðskiptalífi flytja áhugaverð ávörp. Áhugi Íslendinga á Grænlandi hafi ekki verið mikill fyrir um áratug.

„Þetta hefur breyst mjög mikið og augu æ fleiri Íslendinga að opnast fyrir því að þarna er stórbrotið ævintýraland bara rétt handan við hafið. Gjörólíkt Íslandi. Þarna býr stórkostleg þjóð og ég þreytist ekki á að segja það að við erum heppnasta þjóð í heimi með nágranna,“ segir Hrafn Jökulsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×