Innlent

„Leitin að allsherjarkenningu alheimsins ekki tilgangslaus“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Þar sem þessar þyngdarbylgjur eru ekki lengur fræðilega, heldur staðreynd, þá getum við svo gott sem afskrifað allar aðrar hugmyndir um uppruna okkar.
Þar sem þessar þyngdarbylgjur eru ekki lengur fræðilega, heldur staðreynd, þá getum við svo gott sem afskrifað allar aðrar hugmyndir um uppruna okkar. VÍSIR/GETTY
Þetta er ein mesta uppgötvun vísindasögunnar og breytir landslagi geimvísindanna varanlega. Vísindamenn í Bandaríkjunum hafa fært heiminum innsýn inn í fæðingu alheimsins, sekúndubrotum eftir Miklahvell.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að vísindamennirnir við Harvard eru þegar orðaðir við Nóbelsverðlaunin í eðlisfræði. Uppgötvun þeirra markar tímamót í vísindasögunni og það fyrir ýmsar sakir.

Það er hægara sagt en gert að átta sig á mikilvægi þessa áfanga, skiljanlega kannski, enda varpar hann ljósi á sjálft upphaf alls. Í stuttu máli felst áfanginn í staðfestingu á að ógnarmiklar þyngdarbylgjur hafi myndast á óðaþensluskeiði Miklahvells. Þetta er afdráttarlaus vísbending um að þessi þennsla hafi átt sér stað og þar með Miklihvellur sjálfur.

Alheimurinn er tæplega fjórtán milljarða ára gamall. Það hljómar ótrúlega en uppgötvun vísindamannanna sýnir fram á hvað gerðist tíu trilljón trilljón trilljónustu úr sekúndu eftir Miklahvell.

Þyngdarbylgjur vegna óðaþenslu mynda dauft en áberandi undið mynstur í skautun örbylgjukliðsins, elsta ljósi alheimsins og endurómi Miklahvells.VÍSIR/BICEP2
„Í raun og veru er hægt að segja — ef þessar mælingar verða staðfestar — að við séum að horfa á sjálfan Miklahvell,“ segir Einar H. Guðmundsson, prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands.

Þar sem þessar þyngdarbylgjur eru ekki lengur fræðilega, heldur staðreynd, þá getum við svo gott sem afskrifað allar aðrar hugmyndir um uppruna okkar. Til dæmis kenninguna um hið mikla hrun þar sem hringrás út- og innöndunar stjórnar þennslu og hjöðnun eða endalokum alheimsins.

BICEP2 rannsóknarstöðin á Suðurskautslandinu.VÍSIR/BICEP2
En það er einn galli á gjöf Njarðar. Þyngdarbylgjurnar segja okkur ekkert um uppruna alls þess efnis og atóma sem mynda alheiminn. Kenningin um hið mikla hrun sneiddi framhjá slíkum hugmyndum með áherslunni á hringrás alheimsins. Þessi nýja og sögulega uppgötvunin er því fyrst og fremst til þess fallin að vekja enn frekari athygli á stóru spurningunni, hvað var fyrir Miklahvell?

„Núna er í fyrsta skipti komin áþreifanleg vísbending um það að þyngdarkrafturinn er skammtaður og að hann sé þar með eins og aðrir frumkraftar náttúrunnar, þá sé þessi gamla leit skammtaþyngdarfræði —svona allsherjarkenningu — ekki tilgangslaus,“ segir Einar. „Það eru líkur á því að hægt sé að sameina þetta allt í eina kenningu.“

„Þetta sýnir kannski betur en nokkuð annað hversu Einstein gamli var framsýnn. Svo að það eru góðir tímar framundan ef að allar þessar mælingar verða staðfestar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×