Innlent

Sló sjálfur inn rangt númer

Samúel Karl Ólason skrifar
Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar.
Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóri Neyðarlínunnar. Vísir/GVA
Nokkuð er um að Neyðarlínunni berist símtöl frá einstaklingum sem séu að leita sér upplýsingar um símanúmer eða heimilsföng. Viðkomandi einstaklingar eru þá að reyna að hringja í 118, en hringja óvart í 112.

Neyðarlínan birti í gær á Facebook síðu sinni eitt slíkt símtal, sem hafði verið skrifað niður.

Vísir hafði samband við Tómas Gíslason, aðstoðarframkvæmdastjóra Neyðarlínunnar, sem segir neyðarverði fá nokkur símtöl á dag þar sem beðið er um ákveðið símanúmer eða nafn og greinilegt er að fólk ætli sér að hringja í 118.

„Þau eru nokkur á dag, símtölin þar sem beðið er um símanúmer á Dúfnahólum 10. „Sjálfsagt, ef þú hringir í 118“,“ segir Tómas.

„Fólk hringir klárlega óvart og ég hef gert það sjálfur. Fyrir tveimur mánuðum þurfti ég að hringja í 112 og í fumi hringdi ég í 118. Ég náði nú að skella á áður en það var svarað og horfði bara á símann. Ég er búinn að vinna hérna í þrjú ár og náði samt að slá inn vitlausa tölu.“

Ákveðið grínhliðartilvik af þessu er fólk sem ætlar að hringja í 118 og gerir það, en fær samt sambandi við 112. Það er fólk sem kaupir síma á Ítalíu og lætur ekki forrita þá hér á landi. Neyðarnúmerið í Ítalíu er 118 og þegar það er slegið inn er símtalið sent á 112.“

„Þá hringir einhver í Neyðarlínuna og biður um númer á Dúfnahólum 10. Honum er bent á að hringja í 118. Tveimur mínútum síðar hringir hann aftur í 118 er fullviss um að hafa slegið inn þær tölur. Hann fær þó aftur samband við okkur. Þá er neyðarvörðurinn orðinn pirraður og segir viðkomandi aftur að hringja í 118. Já, en ég gerði það segir viðkomandi,“ segir Tómas.

Hann segir þessi tilvik vera sjaldgæf, en þau hafi verið algengari á árunum fyrir hrun.

Einnig óvart hringt í 118

Lilja Hallbjörnsdóttir, þjónustustjóri Já.is, segir allflesta sem svari í 118 hjá fyrirtækinu kannast við að hafa fengið símtöl þar sem viðkomandi vildi ná í 112. „Í þeim tilfellum er oft geðshræring í gangi og fólk hringir óvart í okkur. Í þeim tilfellum erum við mjög meðvituð um að gefa viðkomandi beint samband við Neyðarlínuna,“ segir Lilja.

Til stendur að færa þjónustu 118 yfir á númerið 1818, sem einnig er í eigu Já.is.

„Við fögnum því og erum mjög stolt af 1818. Við munum kynna það vel þegar það gerist,“ segir Lilja.

Tómas telur að umræddum símtölum til Neyðarlínunnar muni fækka með lokun 118.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×