Innlent

Ekki marktækur launamunur milli kynja í Garðabæ

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Landslagsmynd af Garðabæ. Þar er kynbundinn launamunur lítill sem enginn, samkvæmt launagreiningu Gallup.
Landslagsmynd af Garðabæ. Þar er kynbundinn launamunur lítill sem enginn, samkvæmt launagreiningu Gallup. Vísir/Sigurjón
Ný launagreining Capacent Gallup fyrir Garðabæ sýnir að konur í starfi hjá bænum eru með hærri grunnlaun en karlar. Þó fá karlmenn hærri upphæðir greiddar fyrir yfirvinnu, vaktaálag og akstur. Heildarlaun karla eru rúmum 3% hærri en heildarlaun kvenna. Þessi munur er vel innan skekkjumarka. Þetta kemur fram á heimasíðu Garðabæjar.

Markmið launagreiningarinnar var að skoða hvort munur væri á launum kynjanna hjá Garðabæ og hver hann væri út frá greiddum launum bæjarins í október 2013. Unnið var með laun fólks í 70-100% starfi, eða laun 112 karla og 449 kvenna.

Samkvæmt könnuninni fá konur 10% hærri grunnlaun en karlar. Þegar tekið er tillit til áhrifa aldurs, starfsaldurs, starfsstéttar og atvinnugreinar er munurinn enn konum í vil um 2%, en það er vel innan skekkjumarka.

Þegar heildarlaun eru skoðuð fæst önnur niðurstaða, en karlar í fullu starfi eru með 4% hærri heildarlaun en konur. Þegar tekið er tillit til annarra breyta er munurinn körlum í vil um 3%, og þá vel innan skekkjumarka.

Samkvæmt þessum tölum er enginn marktækur kynbundinn munur á heildarlaunum karla og kvenna hjá Garðabæ, segir í skýrslu Garðabæjar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×