Innlent

Ákvörðun ráðherra sögð skapa óvissu um framtíð Landbúnaðarháskólans

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, og Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. vísir/gva
Bændasamtök Íslands hafa sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla menntamálaráðherra um málefni Landbúnaðarháskóla Íslands.

Haft er eftir Illuga Gunnarssyni menntamálaráðherra í Fréttablaðinu í dag að skólinn þurfi að grípa til nauðsynlegra aðgerða til að ná fram þeirri hagræðingu sem honum sé ætlað. Ofan á hafi orðið sjónarmið sem hann telji skammsýn og hvorki til þess fallin að styrkja héraðið né nám og vísindastarfsemi í búvísindum.

Skólinn verður af innviðafjárfestingu upp á tæpar 300 milljónir króna næstu tvö ár sem ráðgerð var í tengslum við sameiningu skólans við Háskóla Íslands. Er skólanum í staðinn gert að hefja þegar endurgreiðslu á ríflega 760 milljóna króna framúrkeyrslu fjárlaga síðustu ár.

Fyrirhuguð sameining mætti andstöðu hjá stórum hluta aðstandenda skólans, sveitarstjórn í Borgarfirði og Bændasamtökum Íslands, auk þingmanna Norðvesturkjördæmis.

„Þessi ákvörðun ráðherra skapar verulega óvissu um framtíð skólans og þróun í íslenskum landbúnaði og er þvert á áform um verulega uppbyggingu skólans,“ segir í yfirlýsingunni en undir hana ritar Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna.

„Útspil ráðherra vekur furðu í ljósi þess að hann var áður reiðubúinn til þess að byggja upp starfsemi á Hvanneyri og Reykjum. Í stað þess dregur hann nú fram refsivöndinn þegar hann nær ekki fram fyrirhugaðri sameiningu. Þetta er einnig sérkennilegt í ljósi stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla innlenda matvælaframleiðslu.“

Yfirlýsingin í heild sinni

Vegna ummæla menntamálaráðherra um málefni Landbúnaðarháskóla Íslands.

Landbúnaðarháskóli Íslands verður af 300 milljóna króna framlagi ríkisins næstu tvö árin þar sem horfið hefur verið frá sameiningu skólans við Háskóla Íslands, samkvæmt því sem fjölmiðlar hafa eftir menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, í dag, þriðjudaginn 25. mars. Að auki er skólanum gert að endurgreiða ríkinu uppsafnaðan rekstrarhalla undanfarinna ára. Þetta gerir ráðherra, að eigin sögn, vegna andstöðu þingmanna, Bændasamtakanna og heimamanna við áform hans um sameiningu.

Þessi ákvörðun ráðherra skapar verulega óvissu um framtíð skólans og þróun í íslenskum landbúnaði og er þvert á áform um verulega uppbyggingu skólans. Útspil ráðherra vekur furðu í ljósi þess að hann var áður reiðubúinn til þess að byggja upp starfsemi á Hvanneyri og Reykjum. Í stað þess dregur hann nú fram refsivöndinn þegar hann nær ekki fram fyrirhugaðri sameiningu. Þetta er einnig sérkennilegt í ljósi stefnu ríkisstjórnarinnar um að efla innlenda matvælaframleiðslu.

Búnaðarþing undanfarinna ára hafa ályktað um framtíð skólans enda mikilvægt fyrir íslenskan landbúnað og þróun hans að í landinu séu til öflugir skólar sem sinna endurmenntun bænda, starfsmenntanámi, háskólanámi og rannsóknum í landbúnaði. Sjálfstæðir og öflugir landbúnaðarháskólar eru mikilvægur hlekkur í framþróun og framtíð íslensks landbúnaðar og forsenda þeirrar sóknar sem fyrirhuguð er í innlendri matvælaframleiðslu. Standa þarf vörð um sjálfstæði landbúnaðarháskólanna og ástæða er  til að óttast að ef yfirstjórn þeirra færist til Reykjavíkur, fjari fljótlega undan skólum staðsettum á landsbyggðinni.

Sveitarstjórn Borgarbyggðar setti á stofn vinnuhóp um framtíð háskóla í sveitarfélaginu. Í hópnum sitja fulltrúar sveitarfélagsins, Bændasamtakanna, atvinnulífsins í héraði og rektorar LbhÍ og Bifrastar. Ráðgjafar KPMG unnu greiningu á því hvernig mismunandi valkostir, það er, sameining við HÍ eða sjálfstæði skólans koma út. Þar kom fram að rekstrarfyrirkomulagið sjálfseignarstofnun gæti haft marga kosti fyrir skólann, vegna möguleika á aukinni tengingu við atvinnuveginn, til að tryggja starfsmenntanámið og vegna þess að það form gæti gefið meiri sveigjanleika varðandi eignaþróun en verið hefur síðustu árin.

Það er brýnt að skólinn fái heimild til að þróa starf sitt og þær eignir sem honum tengjast en áætlað verðmæti þeirra er um 3,5 milljarðar. Þær tillögur sem menntamálaráðherra hefur kynnt um ýmsar eignatilfærslur, ný verkefni og aukna fjármuni henta í raun prýðilega fyrir sjálfseignarstofnun eða sjálfstæðan ríkisháskóla.  

Áréttað skal að vel hefur verið staðið að starfsmenntanámi bænda í gegnum tíðina. Bændaskólinn á Hvanneyri var stofnaður árið 1889 og með háskóladeild frá 1947 sem var fyrsta háskóladeild utan Háskóla Íslands. Einnig hefur verið garðyrkjunám í boði frá Reykjum frá árinu 1939.

Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands


Tengdar fréttir

Skammsýni að sameinast ekki HÍ

Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri þarf að draga verulega saman seglin til að halda sér innan fjárlaga og endurgreiða framúrkeyrslu síðustu ára. Menntamálaráðherra hefur kallað eftir áætlun þar að lútandi hjá rektor skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×