Innlent

Hvorki fórnarlömb né hetjur

Birta Björnsdóttir skrifar
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir.
Steinunn Ása Þorvaldsdóttir.
Hlutverk fjölmiðla og ábyrgð á virkri samfélagsþáttöku fatlaðs fólks var til umræðu á málþingi sem haldið var í Norræna húsinu fyrr í dag. Kristín Björnsdóttir er ein höfunda nýútkominnar bókar sem nefnist Fötlun og menning, sem fjallar meðal annars um birtingarmynd fatlaðra í fjölmiðlum. Hún segir birtingarmyndina vera einkum tvennskonar.

,,Algengast er að í fjölmiðlum sé annaðhvort fjallað um fatlað fólk sem hetjur eða fórnarlömb. Hetjurnar eru þá fólk sem er að gera eitthvað sem við eigum ekki von á að þau geti gert. Þó við höfum öll gaman að hetjum eru þær ekki beint lýsandi fyrir daglega reynslu fatlaðs fólks og fórnarlömbin eru það ekki heldur," segir Kristín.

,,Það sem að lítið er talað um fatlað fólk í fjölmiðlum skiptir máli að þegar það er gert sé talað um fatlað fólk á þann hátt sem það vill sjálft."

Kristín segir mikilvægt að fatlaðir séu ekki eingöngu í fjölmiðlum til að ræða málefni fatlaðra.

,,Það er algjört lykilatriði ef við lítum á fatlað fólk sem hluta af borgurum þessa lands, þá hljóta þau að hafa rödd og skoðanir eins og allir aðrir."

Steinunn Ása Þorvaldsdóttir, sem einnig sat ráðstefnuna, tekur undir þetta.

,,Jú, það er nákvæmlega það sem við erum að tala um hérna. Það er mikilvægt að allir taki þátt í öllu, fatlaðir líka. Þeir mega alls ekki gleymast í þessarri umræðu. Við getum öll gert betur, við þurfum bara að vera dugleg að berjast og segja það sem okkur finnst."

Steinunn Ása segir það jafnframt mikilvægt að talað sé við fatlaða sjálfa, það séu ekki aðrir sem tali sífellt fyrir þeirra hönd.

,,Já það kemur oft fyrir og það er það erfiðasta. Þau vita ekki betur en við."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×