Innlent

300 milljónir króna í höndum Reykjavíkurbúa

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/gva
Rafrænar íbúakosningar í Reykjavík, þar sem kosið verður um verkefni í hverfum borgarinnar, hófst á miðnætti í gær. Kosningarnar standa yfir dagana 11.-18. mars og kjósa íbúar þá á milli fjölmargra hugmynda sem fegra og bæta hverfin.

Allir íbúar yfir 16 ára aldri hafa þátttökurétt. Yfirskrift kosninganna er Betri hverfi 2014 – Virkjum íbúalýðræðið.

Betri hverfi 2014 er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefna í hverfum Reykjavíkurborgar. Verkefnið byggir á hugmyndum um að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku.

Verkefnið er með svipuðu sniði og Betri hverfi 2013 og er byggt á reynslu fyrri ára.

Þetta er í þriðja sinn sem íbúum í Reykjavík gefst kostur á að kjósa um verkefni í hverfunum sínum í rafrænum kosningum með dulkóðuðum auðkennum. Kosningarnar eru með sama sniði og síðustu tvö ár á vef Betri Reykjavíkur.

Skjáskot af vefnum Reykajvik.isvísir/skjáskot
Á síðustu tveimur árum hafa íbúar í Reykjavík kosið yfir 200 verkefni til framkvæmda í hverfum borgarinnar, sem Reykjavíkurborg hefur framkvæmt eða eru á undirbúningsstigi. Hefur Reykjavíkurborg varið 600 milljónum til þessara verkefna.

Í ár verður 300 milljónum varið til nýrra verkefna í hverfunum sem íbúar forgangsraða í kosningunum. Auglýst var eftir hugmyndum frá íbúum í nóvember á síðasta ári og bárust yfir 400 hugmyndir sem hverfisráð og fagteymi á vegum borgarinnar fóru yfir.

Nýja auglýsingu vegna verkefnisins, með borgarstjóranum Jóni Gnarr í aðalhlutverki, má sjá í spilaranum hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×