Innlent

Gefa heilbrigðisráðherra kartöflu í skóinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Efna til táknrænna mótmæla við aðalinngang velferðarráðuneytisins.
Efna til táknrænna mótmæla við aðalinngang velferðarráðuneytisins.
Hjúkrunarfræðingar og stjórnendur á Hrafnistu efna til táknrænna mótmæla við aðalinngang velferðarráðuneytisins í Hafnarhúsinu við Tryggvagötu í fyrramálið kl. 9:15.

Ákveðið hefur verið að afhenda Kristjáni Þór Júlíussyni, heilbrigðisráðherra, kartöflur ásamt ályktun þar sem skorað er á ráðherrann að sjá til þess að öldrunarheimili og sjálfstætt starfandi heilbrigðisstofnanir, líkt og Hrafnista, fái fjárframlag frá ríkinu með sambærilegum hætti og veitt var til ríkisstofnana í „jafnlaunaátaki“ í ársbyrjun 2013.

Þannig verður komið í veg fyrir að sá launamunur sem skapast hefur vegna jafnlaunaátaksins viðhaldist milli hjúkrunarfræðinga eftir mismunandi heilbrigðistofnunum.

Á aðventunni fá hin óþekku kartöflu í skóinn frá jólasveininum og á sama hátt verða send skýr skilaboð frá hjúkrunarfræðingum og stjórnendum Hrafnistu til heilbrigðisyfirvalda.

Hópurinn telur að nú sé nauðsynlegt að bretta upp ermar og koma í veg fyrir það ófremdarástand sem styttist í vegna erfiðleika við ráðningar hjúkrunarfræðinga sökum jafnlaunaátaksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×