Innlent

Partý framhaldsskólanema í Turninum blásið af

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Turninn nítjánda er veitingastaður á 19. hæð turnsins.
Turninn nítjánda er veitingastaður á 19. hæð turnsins. vísir/stefán
Partýi framhaldsskólanema sem halda átti í Turninum nítjándu í Kópavogi á morgun hefur verið aflýst. Það er ákvörðun eiganda Salarins eftir fund með lögregluyfirvöldum.

„Lögregluyfirvöld settu sig í samband við mig af fyrra bragði,“ segir Eggert Gíslason, einn af eigendum staðarins, en hann hafði ekki heyrt af partýinu fyrr en hann las um það á Vísi.

„Ætli þetta hafi ekki verið einhver misskilningur. En skipuleggjendurnir höfðu fullan skilning á þessu. Þetta er ábyrgð sem ég get ekki tekið gagnvart húseigendum og einnig varðandi aldurstakmörk. Þetta eru krakkar í menntaskóla.“

Að sögn Eggerts hefur Turninn nítjánda leyfi fyrir 400 manns en yfir 3.000 höfðu fengið boð í partýið á viðburðasíðu á Facebook. Þar af höfðu yfir 500 staðfest komu sína og tæplega 400 sagst mögulega ætla að mæta.

„Þetta hefði orðið eitt kaos. Þetta er skrifstofuhúsnæði sem er opið fram eftir kvöldi,“ segir Eggert og vonast hann til að sem flestir fái fregnir af því að ekki verði af partýinu.

Hilmar Jökull Stefánsson, einn af skipuleggjendum partýsins, segir í samtali við Vísi að hann harmi ákvörðun turnsins en sýni henni fullan skilning. „Við munum að öllum líkindum reyna að halda einhvern annan viðburð á næstunni í staðinn fyrir þennan,“ segir Hilmar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×