Innlent

Fjallamennska og áfengisdrykkja fara ekki saman

Birta Björnsdóttir skrifar
Ferðafélag Íslands, ásamt fleiri félögum víðsvegar um landið, hafa kvartað er undan slæmri umgengni í skálum félaganna víða um land. Engin skipulögð gæsla er í skálunum yfir vetrartímann og er ferðamönnum treyst fyrir lyklavöldum. Það gerist því miður reglulega að ferðamenn bregðast þessu trausti og þá ekki síst þegar áfengi er haft um hönd.

„Áfengisneysla og ferðamennska á fjöllum, það á bara einfaldlega ekki saman," segir Þórhallur Þorsteinsson, hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs.

Umgengnin hefur versnað, illa er gengið frá hurðum og gluggum í skálum við brottför og rusl skilið eftir.

„Þetta er aftur að versna. Það sem er nýtt eru skemmdir, og stuldur. Innbrot í geymslur og í peningakassa. Þetta erum við að sjá í fyrsta sinn á síðustu árum," segir Þórhallur.

Meira að segja eru dæmi  um það að ferðamenn hafi gengið örna sinna inni í skálunum.

„Þetta er ekki stór hópur manna sem ganga svona um svo við erum að reyna að fá hinn góða ferðamann í lið með okkur til að sporna við þessarri þróun."

Og þetta eru að stærstum hluta íslenskir ferðamenn sem um ræðir.

„Ég held að þetta séu bara Íslendingarnir. Við verðum að taka þetta til okkar. Ferðafélögin vilja biðla til ferðamanna um að standa saman í þessum málum og láta vita þegar þeir verða varir við eitthvað misjafnt," segir Þórhallur.

„Í versta falli þarf að fara að velja þá sem fá aðgang að skálunum. Það er algjört neyðarúrræði, við viljum að þessir skálar séu aðgengilegir og að sem flestir geti notið þeirra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×