Innlent

Sundabraut aftur á samgönguáætlun

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Stefán
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun nýja samgönguáætlun fyrir árin 2013 til 2016. Í kjölfarið verður hún lögð fyrir Alþingi sem tillaga til þingsályktunar.

Meðal stærstu framlaga á næsta ári til vegverkefna eru nefnd í tilkynningu frá innanríkisráðuneytinu, þriggja miljarða króna framlag til Norðfjarðarganga, um 800 milljóna króna framlag til breikkunar á Hellisheiðarvegi, framkvæmdir við Arnarnesveg fyrir um 500 milljónir og vinnu við Vestfjarðaveg, Dettifossveg og við nýja brú yfir Jökulsá á Fjöllum. Þau þrjú verkefni fá um 400 milljónir króna hvert.

Sundabraut er aftur komin á samgönguáætlun en stefnt er að því að hefja samstarf einkaaðila og ríkisins vegna fjármögnunar hennar á tímabilinu. Einnig gerir áætlunin ráð fyrir framkvæmdum við jarðgöng undir Húsavíkurhöfða vegna uppbyggingar á Bakka fyrir um 850 milljónir króna.

Í tilkynningunni segir að 5,4 milljörðum verði varið til viðhaldsverkefna á næsta ári sem er tíu prósent hækkun á milli ára. Þá á að bjóða út gerð Dýrafjarðarganga árið 2016 og gert er ráð fyrir að rannsóknir vegna Fjarðarheiðaganga hefjist á þessu ári.

Einnig verður sett umtalsvert fé til lagningar slitlags á tengivegi víðs vegar um landið og til hjóla- og göngustíga, umferðaröryggisaðgerða og ýmissa lagfæringa til að greiða fyrir almennri umferð og umferð almenningsvagna á höfuðborgarsvæðinu.  


Tengdar fréttir

Vilja Sundabraut aftur í áætlun

Þau Sigrún Magnúsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Karl Garðarsson og Frosti Sigurjónsson hafa lagt fram þingsályktunartillögu um Sundabraut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×