Innlent

Vilja Sundabraut aftur í áætlun

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Onnó
Þau Sigrún Magnúsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Karl Garðarsson og Frosti Sigurjónsson, sem öll eru þingmenn Framsóknarflokksins hafa lagt fram þingsályktunartillögu um Sundabraut. Tillagan fjallar um að Alþingi feli innanríkisráðherra að vinna að því að Sundabraut verði að nýju tekin inn í samgönguáætlun við næstu endurskoðun hennar.

Í greinargerð tillögunnar segir að mat flutningsmanna hennar sé að öll rök hnígi að því að Sundabraut verði valin sem framtíðarkostur í samgöngumálum á Höfuðborgarsvæðinu.

„Flutningsmenn telja að mikilvægt sé að hlúa að öllum ferðamátum innan borgarinnar og tengingum við hana. Í 12 ára áætlun fyrir vegaframkvæmdir í landinu kemur fram að 240 milljarðar kr. verði settir í jarðgöng, brýr og aðrar vegaframkvæmdir næstu árin. Stærsti hlutinn fer í kostnaðarsamar framkvæmdir úti á landi, jarðgöng á Vestfjörðum og víðar. Framkvæmdir eins og Sundabraut og Miklabraut í stokk eru varla nefndar þrátt fyrir að þjóna mun fjölmennari hópi landsmanna.“

Þá segir ennfremur að fyrir liggi að umferðarspár sem gerðar hafi verið um nýtingu Sundabrautar gefi til kynna að yfir hana muni fara 23.000 til 30.000 bílar á sólarhring árið 2030.

Við arðsemismat brautarinnar verði að líta til þess ávinnings sem fáist af því að fá vegtengingu við borgarland sem sé stærra en marga gruni. „Geldinganes er álíka stórt og elsti hluti borgarinnar. Sambærilegt svæði að stærð nær frá Ánanaustum til Rauðarárstígs og frá Sæbraut að Hringbraut. Með tilkomu Sundabrautar verður nesið í góðum tengingum við allt vegakerfi höfuðborgarsvæðisins. Skipulag og nýting Geldinganess, Álfsness og Kjalarness í framtíðinni býður upp á mikla möguleika en forsenda þess er gerð Sundabrautar.“

Þá myndi tilkoma Sundabrautar stytta leiðina Norður og Vestur um tíu kílómetra og ekki þyrfti lengur að fara í gegnum þéttbýli Mosfellsbæjar. „Í því samhengi má benda á að mikil umsvif eru á Grundartanga þar sem fjölmörg stórfyrirtæki reka starfsemi sína og allar líkur eru á að frekari uppbygging iðnaðar verði á því svæði til framtíðar,“ segir í Greinargerðinni.

„Fjöldi nýrra glæsilegra byggingarlóða mun gera Kjalarnes, Leirvog og fleiri staði að verðmætum hluta borgarinnar. Mikilvægt er fyrir framtíðarþróun borgarinnar að skapa slíka möguleika á uppbyggingu en sérstaklega er þarft að huga að uppbyggingu borgarinnar í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í flugvallarmálinu. Ljóst er að flugvöllurinn verður ekki fluttur úr Vatnsmýrinni í bráð og uppbyggingar á því svæði því ekki að vænta. Slíkur flutningur mun kosta gríðarlega fjármuni og er mat flutningsmanna að vænlegra sé að verja fjármunum almennings í þarfari ráðstafanir, til að mynda að bæta samgöngur á landi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×