Innlent

Björgunarsveitin aðstoðar ökumenn á Fjarðarheiði

Stefán Árni Pálsson skrifar
Fjórir bílar sitja fastir á Fjarðarheiði.
Fjórir bílar sitja fastir á Fjarðarheiði. visir/vilhelm
Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði er nú á Fjarðarheiði þar sem fjórir bílar sitja fastir en slæmt veður og færð hamla för.

Búið er að loka veginum. Björgunarsveitin hefur þegar tekið fólk úr einum bíl og er á leið að þeim næsta. Verið er að senda bíl frá Egilsstöðum til að aðstoða við að flytja ökumenn og farþega hinna bílanna til byggða.

Björgunarsveitin Jökull á Jökuldal er að sækja fastan bíl á Jökuldalsveg og Hafliði á Þórshöfn aðstoðar ferðalanga er fóru akandi um Hófaskarð og festu bílinn sinn þar.

Slysavarnafélagið Landsbjörg brýnir fyrir fólki að vera ekki á ferðinni á fjallvegum nema á mjög vel búnum bílum, að ferðast ekki einbíla þar sem veður er vont og færð slæm og skilja alltaf eftir ferðaáætlun þar sem fram kemur væntanlegur komutími á áfangastað. Einnig skal ávalt virða lokanir vega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×