Innlent

Sálfræðiþjónusta gegn brotthvarfi úr framhaldsskólum

Birta Björnsdóttir skrifar
Umræðan um brottfall nemenda úr framhaldsskólum hefur verið talsvert í umræðunni og í fréttum Stöðvar 2 í gær sögðum við frá því að brottfallið er talið kosta samfélagið um 52 milljarða króna árlega. Það er því ljóst að mikill ávinningur felst í því að minnka brotthvarf nemenda úr skólum og voru hugmyndir þess efnis kynntar á þingi Sálfræðingafélags Íslands sem fram fór um helgina.

Þar var bent á mikilvægi sálfræðiþjónustu fyrir framhaldsskólanemendur, það hafi meðal annars sýnt sig í tilraunaverkefni sem hefur verið í gangi í Verkmenntaskólanum á Akureyri undanfarin tvö ár, þar sem sálfræðingur hefur verið nemendum innan handar.

„Nýjar tölur frá Menntamálaráðuneytinu gefa til kynna að brottfall vegna andlegra veikinda í Verkmenntaskólanum á Akureyri sé heldur en minna en í hinum skólunum sem tóku þátt í rannsókninni. Það er svo sem ekki búið að útiloka neinar aðrar breytur en þetta gefur engu að síður góðar vísbendingar, segir Hjalti Jónsson, sálfræðingur hjá VMA.

Hann segir sömu rannsókn sýna fram á það að stór hluti nemenda falli úr skóla vegna andlegra veikinda, sálfræðiþjónusta ætti því að geta hjálpað í mörgum þeirra tilfella, sem leiði af sér sparnað fyrir samfélagið. Þá sé viðvera sálfræðings einnig mikilvæg til að sporna við fordómum gegn andlegum veikindum.

„Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir krakkana að sjá sálfræðinginn á vappi með enskukennaranum og upplifa að sálfræðingurinn sé hluti af hefðbundnu skólalífi. Það færir þjónustuna nær krökkunum, eyðir fordómum og eykur líkurnar á því að hægt sé að taka fyrr á málum og koma í veg fyrir vanda sem annars nær að vaxa gríðarlega ef ekkert verður að gert," segir Hjalti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×