Innlent

"Munum ekki ráðast í styttingu einn, tveir og þrír“

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Lítið sem ekkert miðar í kjaraviðræðum framhaldsskóla-kennara og ríkisins en fundað var án árangurs í húsakynnum Ríkissáttasemjara í dag. Menntamála-ráðherra segir kerfisbreytingu nauðsynlega til að koma til móts við kennara. Óttar Proppé sagði verkfallsaðgerðir kennara forðum hafa haft afdrifaríkar afleiðingar á líf sitt.

Þetta er þriðji dagur verkfalls og framhaldsskólakennarar sátu á ný við samningaborðið hjá Ríkissáttasemjara. Útlitið er svart. Ríkissáttasemjari hefur ekki lagt til miðlunartillögu sem gæfi merki um að það væri hægt að finna lausn á vandamálinu á næstunni. Því munu 28 þúsund framhaldsskólanemar bíða heima meðan kennarar og samninganefnd ríkisins ræða saman.

Samninganefndir ríkisins og Félags stjórnenda í framhaldsskólum og Félags framhaldsskólakennara funduðu frá klukkan ellefu í morgun og voru enn á fundi fyrir fréttir. Aðilar sem fréttastofa ræddi við í dag eru svartsýnir á framhaldið en ítreka að allar viðræður séu jákvæðar.

Framhaldsskólakennara fara fram á sautján prósenta hækkuna launa en það er ekki það eina sem rætt er hjá Ríkissáttasemjara. Ummæli og áherslur menntamálaráðherra, um styttingu framhaldsskólanáms hefur flækt samningaviðræður.

Kennarar fóru hörðum orðum um ráðherranna í fréttum okkar í gær. Þau saka Illuga um að tvískinnung, hann tali öðruvísi við fjölmiðla en hann talar við kennara þegar stytting náms er annars vegar.

„Ég held að það þekki allir mína stefnu í þessum málum enda hef ég talað skýrt, í raun óvenju skýrt. Það verður aftur á móti að liggja fyrir að það eru ekki hugmyndir um að ráðast í styttingu einn, tveir og þrír ef svo má að orði komast,“ segir Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra.

Illugi kallar styttingu framhaldsskólanáms nútímavæðingu íslenska skólakerfisins og að þetta þurfi að nota til að koma til móts við kröfu kennara. Þá sé ómögulegt fyrir ríkisvaldið að semja öðruvísi við sína starfsmenn en gert var á almenna markaðinum.

„Til þess að það sé möguleiki til þess að gera eitthvað meira þá þarf að vera á grundvelli kerfisbreytinga. Og það er það sem við höfum verið að leggja upp við kennara. Ég tel að það sé auðséð við Íslendingar eigum ekki að vera einir OECD-þjóða þar sem það tekur 14 ár að undirbúa okkar ungmenni fyrir háskólanám.

Málið var rætt við upphaf þingfundar í dag. Bjarkey Gunnarsdóttir tók undir með athugasemdum kennara sem gagnrýnt hafa samninganefnd fyrir að draga pólitíska stefnumótun á borð við styttingu náms í kjaraviðræður.

„Það er óraunhæft og óeðlilegt að ætlast til þess að menntastefna þjóðar sé hluti af kjarasamningum. Ekki frekar en að samgönguáætlun sé hluti af kjarasamningum Vegagerðarinnar,“ sagði Bjarkey.

„Sá sem hér stendur stundaði nám í framhaldsskóla á Íslandi í samtals þrjú ár, fyrir um það bil 30 árum,“ sagði Óttar Proppé, þingmaður Bjartrar framtíðar en hann hafði miklar áhyggjur af áframhaldandi verkfalli kennara. „Það voru verkföll öll þau ár. Á þriðja ári fékk ég ógeð á kaffi og fór út á vinnumarkaðinn. Hef frestað því að fara aftur í skóla og er ennþá á vinnumarkaði.“

„Þetta hefur haft mikil áhrif á mitt líf. Ég ætla svo sem ekki að kvarta hvernig fór en það eru kannski ekki allir jafn heppnir og ég að enda á Alþingi,“  sagði Óttar á Alþingi í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×