Innlent

Notar blýantinn ennþá - "Örugglega Íslandsmet í klaufaskap“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
"Ég hugsa að ég kaupi mér næst blýant með strokleðri öðru megin, þá er minni hætta á að ég yddi báða enda,“ sagði Rökkvi.
"Ég hugsa að ég kaupi mér næst blýant með strokleðri öðru megin, þá er minni hætta á að ég yddi báða enda,“ sagði Rökkvi.
„Ég var að hoppa niður af borði og lagði höndina ofan á blýantinn sem fór í gegnum höndina á mér,“ segir Rökkvi Rögnvaldsson, 15 ára drengur á Akureyri, um slys sem hann varð fyrir í skólanum fyrir tæpum tveimur vikum síðan.

Rökkvi var í dönskutíma í skólanum sínum, Brekkuskóla á Akureyri. og þurfti að fara upp á borð til að kveikja á skjávarpa og var á leiðinni niður af borðinu þegar blýanturinn stakkst í gegn. Blýanturinn stóð upp úr yddara og var yddaður báðum megin. Vefsíðan Vikudagur sagði frá þessu.

„Þetta er örugglega Íslandsmet í klaufaskap,“ segir faðir Rökkva, Rögnvaldur Rögnvaldsson.

Blýanturinn sem fór í gegn var í eigu Rökkva sjálfs. „Ég nota hann ennþá, ég var meira að segja að nota hann rétt áðan,“ segir Rökkvi sem var í frímínútum í skólanum þegar fréttastofa heyrði í honum.

Hann segist ekkert hafa fundið fyrir því þegar blýanturinn fór í gegn. Húsvörðurinn keyrði hann á sjúkrahús þar sem gert var að sárinu. Að sögn Rökkva grær sárið nokkuð vel.

„Ég hugsa að ég kaupi mér næst blýant með strokleðri öðru megin, þá er minni hætta á að ég yddi báða enda,“ sagði Rökkvi í samtali við vikublaðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×