Innlent

Kennarar Tækniskólans skora á eigendur að axla ábyrgð

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/GVA
Kennarar Tækniskólans lýsa yfir mikilli óánægju með launakjör framhaldsskólakennara í ályktun frá skyndifundi Kennarafélags Tækniskólans í morgun. Í ályktuninni, sem var samþykkt einróma á fjölmennum fundi, segir að dagvinnulaun framhaldsskólakennara hafi dregist saman um 17 prósent aftur úr launum samanburðarhópa hjá ríkisstofnunum.

„Grófur og margendurtekinn niðurskurður á fjármunum til starfsemi framhaldsskóla hefur um langt árabil gert framhaldsskóla óhæfa til þess að stuðla að eðlilegri launaþróun starfsmanna sinna. Skýrsla allra aðila á vinnumarkaði frá október 2013 sýnir svart á hvítu að laun í framhaldsskólum hafa hækkað minna en hjá öllum öðrum starfsstéttum á árabilinu milli 2006 og 2013.“

Ennfremur var lýst yfir mikilli óánægju með vinnuveitendur og viðsemjendur hafi ekki fallist á að gera neinar breytingar á kjaraákvörðunum sem gagnast gætu til að sporna við launasigi í framhaldsskólum miðað við samanburðarhópa.

„Félagsfundur í Kennarafélagi Tækniskólans skorar á stjórnvöld, stjórnmálastéttina og eigendur Tækniskólans ehf. að leiðrétta launakjör framhaldsskólakennara þegar í stað til þess að koma megi í veg fyrir að framhaldsskólakennarar þurfi enn einu sinni að fara í harða kjarabaráttu til þess að ná fram launaleiðréttingu og að fá boðleg laun fyrir starf sitt.

Fundurinn skorar sérstaklega á eigendur Tækniskólans ehf. (Landssamband íslenskra útvegsmanna, Samtök iðnaðarins, Samorku, Samtök íslenskra kaupskipaútgerða og Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík) að axla samábyrgð sína á bágum launakjörum kennara skólans með því að stíga fram og beita sér fyrir bættum kjörum kennara við Tækniskólann, meðal annars með fjárframlögum til skólans, enda þjónar menntun nemenda Tækniskólans atvinnulífinu með beinum hætti.

Slök launakjör ógna nýliðun í kennarastétt og grafa undan gæðum skólastarfs, þar með talið undirbúningi nemenda Tækniskólans fyrir atvinnulífið. Fundurinn lýsir yfir fullum stuðningi við samninganefnd Félags framhaldsskólakennara og hvetur hana til þess að standa fast við kröfuna um nauðsynlega launaleiðréttingu og lýsir yfir fullum vilja til að fylgja kröfunni eftir með öllum tiltækum aðgerðum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×