Fótbolti

Aron skoraði en meiddist | Myndband

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Aron fagnar marki sínu í kvöld.
Aron fagnar marki sínu í kvöld. Vísir/Getty
Bandaríski landsliðsmaðurinn Aron Jóhannsson skoraði annað mark AZ Alkmaar gegn Vitesse Arnheim í kvöld en fór af velli í hálfleik vegna meiðsla.

Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður Arons, staðfesti í samtali við fréttastofu að framherjinn hefði meiðst. Um smávægilega tognun á framanverðu læri væri að ræða.

Aron skoraði markið eftir klaufagang hjá varnarmönnum Vitesse. Vippaði hann boltanum snyrtilega yfir markvörð andstæðinganna sem kominn var af línu sinni.

Markið má sjá hér.

Staðan í hálfleik var 2-0 og hún hélst til loka. Með sigrinum er AZ komið upp að hlið Heerenveen í 5.-6. sæti deildarinnar með 33 stig. Heerenveen hefur þó betri markatölu en AZ svo munar níu mörkum.

Aron hefur nú skorað 13 mörk í deildinni og er kominn í þriðja sæti yfir markahæstu menn. Alfreð Finnbogason er sem fyrr markahæstur með 20 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×