Innlent

Vatnsmýrin kynnt erlendum fyrirtækjum

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Aukinn áhugi er meðal innlendra og erlendra þekkingarfyrirtækja að byggja upp starfsemi sína í Vatnsmýrinni. Formaður borgarráðs segir mikilvægt að efla vægi þekkingargreina og nýsköpunar í Reykjavík og skapa þannig eftirsóknaverð störf í borginni.

Samstarfsvettvangur um eflingu þekkingarsvæðis í Vatnsmýrinni var formlega stofnaður í Ráðhúsi Reykjavíkur dag. Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Landspítalinn undirrituðu samkomulag þess efnis. Til stendur að markaðssetja Vatnsmýrinni fyrir erlendum þekkingarfyrirtækjum.

„Við höfum séð sambærileg svæði í Evrópu ná árangri í gegnum þá leið. Við vitum að hver þessara aðila sem skrifaði undir í dag myndi ekki gera þetta upp á eigin spýtur en saman getum við náð árangri þó svo að ég ætli ekki að fara að selja norðurljósin - við setjum okkur hófleg markmið,“ segir Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.

Fyrr í vetur hófust framkvæmdir á byggingu hátækniseturs Alvogen í Vatnsmýrinni og er þar um 25 milljarða fjárfestingu að ræða. Vonir standa til að fleiri stór þekkingarfyrirtæki færi aðsetur sitt í Vatnsmýrina. Dagur segir samkeppnina hins vegar mikla.

„Við eigum öll mjög mikið undir því að búa vel að þekkingartengdum greinum, skapandi greinum á næstu árum til þess að unga fólkið fái tækifæri á spennandi og vel launuðum störfum í Reykjavík, höfuðborgarsvæðinu, og á Íslandi. Þetta er í raun samkeppni við útlönd sem er veruleiki fyrir fyrirtæki. Við erum með þessu að reyna að standa okkur í þessari samkeppni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×