Fótbolti

Íslenska liðið fjórum sinnum reyndara en það sænska

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Indriði á æfingu með landsliðinu í Abu Dhabi.
Indriði á æfingu með landsliðinu í Abu Dhabi. Mynd/KSÍ
Indriði Sigurðsson verður landsleikjahæsti leikmaðurinn á vellinum þegar karlalandslið Íslands mætir því sænska í æfingaleik í Abu Dhabi í dag.

Indriði hefur spilað 64 landsleiki á löngum ferli en næstreynslumesti leikmaður Íslands er Valsarinn uppaldi Birkir Már Sævarsson með 40 leiki. Næstir koma Hannes Þór Halldórsson og Ari Freyr Skúlason með 18 landsleiki og svo Arnór Smárason með 16 leiki.

Þeir tuttugu leikmenn sem skipa landsliðshóp Íslands eiga samanlagt að baki 203 A-landsleiki. Fimm nýliðar eru í hópnum.

Hjá Svíum er reynslan hins vegar afar lítil. Landsleikjahæsti leikmaður þeirra er markvörðurinn Pär Hansson með 6 landsleiki. Þrír í hópnum hafa ekki enn spilað fyrir þjóð sína. Samanlagt hafa leikmennirnir 21 spilað 48 A-landsleiki.

Samanlögð reynsla okkar manna í landsleikjum er því rúmlega fjórum sinnum meiri en hjá kollegunum sænsku. Hvort það hafi eitthvað að segja þegar flautað verður til leiks á eftir að koma í ljós.

Leikurinn hefst klukkan 16 og verður í beinni sjónvarpsútsendingu á Stöð 2 Sport og textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×