Fótbolti

Zlatan og bikarmeistararnir úr leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Zlatan og félagar verða ekki bikarmeistarar í ár.
Zlatan og félagar verða ekki bikarmeistarar í ár. Vísir/Getty
Stórliðin Paris Saint-Germain og Bordeaux féllu í kvöld úr leik í 32-liða úrslitunum í franska bikarnum í knattspyrnu.

Zlatan Ibrahimovic hóf leikinn á varamannabekknum þegar Montpellier kom í heimsókn. Gestirnir, sem hafa átt erfitt uppdráttar í deildinni, komust yfir um miðjan fyrri hálfleikinn en Edison Cavani jafnaði skömmu síðar.

Thiago Motta og Zlatan komu inn á sem varamenn á 66. mínútu en það var ekki til að hjálpa heimamönnum. Victor Montana skoraði sigurmark gestanna a 69. mínútu og tryggði Montpellier sæti í 16-liða úrslitum á kostnað frönsku meistaranna.

Enn óvæntari úrslit urðu þegar D-deildarlið FA Ile Rousse Monticello sló út bikarmeistara Bodeaux. Markalaust var eftir venjulegan leiktíma og framlengingu en áhugamennirnir fóru áfram að lokinni vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×