Innlent

Kæfandi myglulykt angrar borgarbúa

Samúel Karl Ólason skrifar
Stór hluti Klambratúns liggur undir klaka.
Stór hluti Klambratúns liggur undir klaka. Vísir/Daníel

Borgarbúar hafa kvartað sáran undan myglulykt sem víða hefur fundist í Reykjavík. Um er að ræða lykt vegna kalskemmda á grasi sem hefur legið undir klaka um tíð. Stillt hefur verið í veðri síðustu daga og því hefur lyktin legið yfir stórum svæðum.

„Þetta er tilkomið vegna kalskemmda á grasi. Það er klaki yfir stórum svæðum og lyktin kemur þaðan undan. Skýringin á því að menn eru að tala um þetta núna er kannski sú að í dag og í gær hefur verið svolítið stillt veður. Þannig hefur lyktin ekki fokið í burtu og safnast aðeins fyrir. Það hjálpar ef það hreyfir vind," segir Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkur.

Þórólfur segir þessar aðstæður ekki koma oft upp í Reykjavík. „Þetta eru aðstæður sem eru kannski svolítið sérstakar núna. Þó þetta hljóti nú að hafa gerst áður hér í Reykjavík man ég ekki eftir því undanfarin ár.“

Klakinn getur verið mjög þykkur og segir Þórólfur lítið vera um lausnir og hætt er við að tún í borginni skemmist.

„Við fengum klaka ofan í auða jörð fyrst svo enginn hiti er í henni. Síðan er veðrið búið að dansa í kringum frostmarkið og þiðna upp og frjósa aftur, svo klakinn er orðinn mjög þéttur. Við gætum horft fram á einhvern skaða ef við fáum ekki hláku bráðum. Það er ekki víst að við séum komin þangað, en það er hætta á því og hún eykst eftir því sem þetta dregst lengur.“

„Við erum ekki með neinar lausnir við þessu, aðrar en að leggjast á bæn. Þetta er meira og minna um alla borg og þó við ættum einhver tæki sem mögulega virka, hef ég ekki trú á að það myndi gagnast svo raunhæft væri. Ég held að við eigum frekar að horfa á hvernig bregðast á við þessu þegar grasið kemur undan klakanum.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.