Innlent

„Þurftu að stökkva í gegnum eldinn til að komast út“

Kristján Hjálmarsson skrifar
Eldur kom upp á annarri hæð á þriðja tímanum í nótt.
Eldur kom upp á annarri hæð á þriðja tímanum í nótt. Mynd/Preessphotoz
„Ég vaknaði við öskur og læti frammi á gangi og það var verið að berja á hurðina. Þegar ég opnaði fram mætti mér reykur. Það fyrsta sem ég gerði var að hlaupa inn og sækja börnin. Svo hlaupum við öll út - nánast á nærfötunum,“ segir Hlynur Þór Jónasson, íbúi við Hraunbæ 30.

Eldur kom upp í íbúð á annarri hæð í fjölbýlishúsinu á þriðja tímanum í nótt. Hlynur, sem býr á fyrstu hæð, segir að flestir íbúar hússins hafi verið komnir út þegar hann kom út.

„Við sóttum svo bílinn minn og settum alla krakkan þar inn. Þá sáum við fólkið á þriðju hæð sem var fast úti á svölum. Það komst ekki niður enda allt í reyk á ganginum,“ segir Hlynur.

Kona og barnabarn hennar sluppu naumlega úr brunanum. „Mér skilst að eldurinn hafi verið við hurðina og þær hafi þurft að stökkva í gegnum eldinn til að komast út,“ segir Hlynur Þór.

Íbúar hússins fengu aðstoðu í rútu frá Rauða krossinum og að sögn Hlyns tók það ekki langan tíma að slökkva eldinn.

„Við vorum í smá sjokki en sem betur fer slasaðist engin. Við fengum að fara inn stuttu síðar og það var allt í lagi með íbúðina okkar,“ segir Hlynur Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×