Erlent

Mænusótt útrýmt í Indlandi með öflugu bólusetningarátaki

Þorgils Jónsson skrifar
Mænuveiki hefur ekki greinst á Indlandi í þrjú ár. Því er að þakka öflugu bólusetningarstarfi, en á þessari mynd sést hvar sjálfboðaliði gefur barni bóluefni á brautarstöð í  Allahabad í morgun.
Mænuveiki hefur ekki greinst á Indlandi í þrjú ár. Því er að þakka öflugu bólusetningarstarfi, en á þessari mynd sést hvar sjálfboðaliði gefur barni bóluefni á brautarstöð í Allahabad í morgun. Vísir/AP
Indverjar fagna því í dag að þrjú ár eru liðin frá því að mænusótt greindist þar síðast. Ef fram fer sem horfir verður Indland, í mars næstkomandi, formlega sett í hóp þeirra landa þar sem mænusótt hefur verið útrýmt.

Mænusótt leggst einna helst á börn undir fimm ára aldri og smitast með vatni. Veiran ræðst á taugakerfi fólks og veldur lömun, vöðvarýrnun, afmyndun og í sumum tilfellum dauða.

Indland var lengi vel eitt af þeim löndum þar sem baráttan við mænusótt var hvað erfiðust, meðal annars vegna landlægrar fátæktar, þéttbýlis, slæmra hreinlætisaðstæðna og veiks heilbrigðiskerfis. Árið 2009 greindust 741 tilfelli af mænusótt í landinu og árið eftir voru þau 42. Síðasta tilfellið kom upp í austurhluta landsins árið 2011. Lykillinn að þessum árangri er hins vegar meiriháttar bólusetningarherferð síðustu þrjú ár þar sem nærri 2,5 milljónir sjálfboðaliða, þar á meðal læknar og annað heilbrigðisstarfsfólk, fóru landshorna á milli og bólusettu börn.

Baráttan gegn mænusótt á heimsvísu hefur gengið afar vel síðustu ár og er sjúkdómurinn nú aðeins landlægur í þremur löndum, Nígeríu, Pakistan og Afganistan, samanborið við 125 lönd fyrir aldarfjórðungi. Það er meðal annars að þakka átaki á vegum WHO og UNICEF með fulltingi Rótarýhreyfingarinnar og fleiri aðila.

Þessi nálægð við Pakistan er einmitt áhyggjuefni fyrir yfirvöld í Indlandi, sem óttast smit frá Pakistan. Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir slíkt hafa Indverjar sett upp bólusetningaraðstöðu á landamærunum við Pakistan þar sem öll börn sem fara þar um eru bólusett.

Mithlesh Devi er 27 ára gömul og veiktist af mænusótt þegar hún var á öðru ári. Hún framfleytir sér með betli fyrir utan hindúahof í Nýju Delí og segist sjálf aldrei hafa þekkt eðlilegt líf, en vonast til þess að barnanna hennar bíði bjartari framtíð.

„Ég hef tryggt að dætur mínar muni ekki hljóta sömu örlög“, sagði hún í samtali við fréttastofu AP. „Ég keypti handa þeim bóluefni þegar þær voru á réttum aldri. Ég er ekki ánægð með hvernig mitt líf þróaðist og þær þrautir sem ég hef mátt þola, en ég átti ekkert val.“

Ástandið í Sýrlandi hefur vakið óhug, sérstaklega eftir að þar greindust tilfelli af mænusótt í fyrra. Þessi skýringarmynd var gerð í nóvember síðastliðnum.

Tengdar fréttir

Ætla að bólusetja milljónir sýrlenskra barna

Tíu staðfest tilfelli af mænusótt meðal sýrlenskra barna vekja ugg. Sjúkdómsins hafði ekki orðið vart í landinu í fjórtán ár. Talsmaður UNICEF segir að bólusetningar barna á hrjáðum svæðum séu lykilatriðið í baráttunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×