Innlent

Mikil ólga innan Sjálfstæðisflokksins

Heimir Már Pétursson skrifar
Ómar Stefánsson, Gunnar Birgisson og Aðalsteinn Jónsson. Oddviti Framsóknarmanna segir Gunnar Birgisson rúin öllu trausti. Formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins lætur ekki undan kröfum um að hann víki.
Ómar Stefánsson, Gunnar Birgisson og Aðalsteinn Jónsson. Oddviti Framsóknarmanna segir Gunnar Birgisson rúin öllu trausti. Formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins lætur ekki undan kröfum um að hann víki.
Framsóknarmenn vilja að Gunnar Birgisson og Aðalsteinn Jónsson bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks í Kópavogi víki úr embættum formanna nefnda í bæjarstjórn. Mikil ólga er innan Sjálfstæðisflokksins og hefur verið skorað á formann fulltrúaráðs og formann kjörnefndar fyrir prófkjör flokksins í næsta mánuði að láta af störfum.

Mikil ólga er innan meirihlutans í Kópavogi eftir að Gunnar Birgisson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði með tillögu minnihlutans um húsnæðismál á fundi í fyrrakvöld og Aðalsteinn Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá. Innan Sjálfstæðisflokksins hefur þetta verið túlkað sem andóf gegn Ármanni Kr. Ólafssyni oddvita flokksins og bæjarstjóra, sem má segja að hafi verið pólitískt niðurlægður með atkvæðagreiðslunni á þriðjudagskvöld.

Jóhann Ísberg varabæjarfulltrúi flokksins og frambjóðandi í prófkjörinu í næsta mánuði gagnrýnir Braga Mikaelsson formann fulltrúaráðs flokksins og formann kjörnefndar í prófkjörinu harðlega í Morgunblaðsgrein í dag og skorar á hann að hætta störfum. Bragi segir að atkvæði hafi verið greidd um tillögu þessa efnis á átakafundi í stjórn fulltrúaráðsins í gær.

„Þetta mál var tekið fyrir á stjórnarfundi í gær og afgreitt þar og ég mun ekki víkja og sé ekki tilefni til þess. Ég var kosinn með 60% atkvæða á aðalfundi í júní og tel mig hafa fullt umboð til að vera áfram,“ segir Bragi og það hafi verið staðfest með atkvæðagreiðslu í gær.

Framsóknarmenn hafa verið í samstarfi með Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi um langt skeið en nú virðist mælirinn fullur hjá þeim hvað Gunnar Birgisson varðar og vilja þeir að hann hætti sem formaður framkvæmdaráðs bæjarins og Aðalsteinn Jónsson, sem sat hjá við atkvæðagreiðsluna í fyrrakvöld, hætti sem formaður leikskólanefndar.

Ómar Stefánsson oddviti Framsóknarmanna segir ekki á Gunnar treystandi.

„Það er alveg ljóst að þetta er þriðja upphlaupið í röð hjá Gunnari. Fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins lofaði samstarfi og bót og betrunfyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Það er klárlega ekki að ganga eftir. Gunnar er rúinn öllu trausti eins og staðan er núna,“ segir Ómar. Hann hafi greint Aðalsteini frá þessari afstöðu og hann og Gunnar þurfi að hugsa sinn gang.

Illmögulegt er að sjá nýjan meirihluta í stöðunni, þar sem samstarf minnihlutaflokkanna og Y-listans sprakk fljótlega eftir síðustu kosningar og Ómar telur ekki þörf á að mynda nýjan fyrir kosningar þrátt fyrir ólguna.

„Nei, það þarf ekki nýjan meirihluta. Helstu mál liggja fyrir. Fjárhagsáætlun er klár og stimpluð. Aðalskipulag er klárt og stimplað. Það eru bara þessi tvö stóru mál sem hvert sveitarfélag afgreiðir og það var gert í nokkuð góðri sátt. Þetta er fyrst og fremst spurning um að geta unnið að hag Kópavogsbúa áfram,“ segir Ómar Stefánsson oddviti Framsóknarflokksins í Kópavogi.

Leiðrétting: Í þessari frétt ljáðist að geta þess að viðtalið við Ómar var tekið fyrir fund formanna Framsóknarfélaga í bænum í gær og er beðist velvirðingar á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×