Innlent

Mikil óvissa framundan

Birta Björnsdóttir skrifar
Málefni samkynhneigðra í Afríku hafa verið talsvert í fréttum undanfarnar vikur. Forseti Nígeríu skrifaði á dögunum undir lög sem banna samkynheigð í þessu fjölmennasta ríki Afríku. Það getur því nú varðað allt að fjórtán ára fangelsi að eiga í ástarsambandi við manneskju af sama kyni, auk þess sem ólöglegt er að tilheyra samtökum samkynhneigðra.

Yoweri Museveni, Forseti Úganda synjaði samskonar lögum staðfestingar í dag. Það er þó eingöngu vegna þess að hann telur löggjöfina ekki bestu leiðina til að uppræta samkynheigð.

Angel Ojara er fædd og uppalin í Úganda og hún segir Museveni eingöngu vera að kaupa sér tíma í þessu viðkvæma máli.

Lönd á borð við Norðurlöndin og Ísland ásamt fleiri löndum gert forsetanum ljóst að hætt verði við þróunaraðstoð í Úganda verði lögin samþykkt.

Angel segir að samkynhneigðir vinir hennar í Úganda hafi verið hvattir til að yfirgefa ekki heimili sín og hún segir mikið óvissuástand framundan.

Angel er samkynhneigð og flutti frá Úganda fyrir tveimur árum. Hún segist afar ánægð með dvölina hér á landi.

Angel vonar að sjálfsögðu að aðstæður samkynhneigðra í heimalandinu breytist, en til þess þarf að fræða almenning betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×