Fótbolti

Enn skorar Alfreð í Hollandi

Vísir/Getty
Alfreð Finnbogason skoraði enn eitt markið fyrir Heerenveen í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld en liðið gerði þá 2-2 jafntefli gegn Roda á heimavelli.

Alfreð skoraði markið úr vítaspyrnu á 66. mínútu leiksins og kom þá sínum mönnum 2-1 yfir. En Guus Hupperts skoraði jöfnunarmark Roda fimm mínútum síðar.

Heerenveen er í fimmta sæti deildarinnar með 30 stig en Vitesse er á toppnum með 40 stig.

Alfreð er markahæsti leikmaður deildarinnar en hann hefur nú skorað átján mörk í sextán deildarleikjum á tímabilinu til þessa.

Graziano Pellé, leikmaður Feyenoord, hefur skorað þrettán mörk og Aron Jóhannsson hjá AZ Alkmaar tólf.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×