Innlent

"Hann fékk krepptan hnefann í andlitið"

Jóhannes Stefánsson skrifar
Árásarmaðurinn var í annarlegu ástandi, samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.
Árásarmaðurinn var í annarlegu ástandi, samkvæmt upplýsingum frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu. Pjetur
Sjúkraflutningamaður frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins varð fyrir árás af hálfu karlmanns sem verið var að flytja á slysadeild. Þetta staðfestir Eyþór Leifsson, varðstjóri hjá Slökkviliðinu.

„Hann fékk krepptan hnefann í andlitið," segir Eyþór í samtali við fréttastofu. Árásin átti sér stað í bílageymslu bráðamóttökunnar í Fossvogi, en Eyþór segir að samstarfsmenn sjúkraflutningamannsins hafi þurft að halda árásarmanninum niðri á meðan beðið var eftir aðstoð lögreglu.

„Hann [sjúkraflutningamaðurinn innsk. blm.] er töluvert bólginn í andliti en hann ákvað þrátt fyrir það að halda áfram vinnu eftir að hafa fengið aðhlynningu."

Eyþór segir ekkert hafa gefið til kynna að maðurinn myndi bregðast við með þessum hætti og því hafi verið ákveðið að óska ekki eftir aðstoð lögreglu við flutninginn, eins og oft er gert þegar viðkomandi er augljóslega í annarlegu ástandi. „Við tökum lögreglumenn með okkur í bílinn ef við teljum vera minnstu hættu á ferðum," segir Eyþór. „Hann var mjög rólegur og hafði fulla stjórn á sér framan af. Svo þegar þeir nálguðust slysadeildina þá skipti hann skapi og lét högg svo dynja á honum þegar komið var inn í bílageymsluna," bætir hann við.

„Þetta sýnir það að við erum að flytja allskonar fólk í allskonar ástandi. Það getur stundum verið hættulegt starf að vera sjúkraflutningamaður," segir Eyþór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×