Innlent

Sóttu hóp fólks á Steingrímsfjarðarheiði

Björgunarsveitarmenn frá Hólmavík komu í gærkvöldi hópi fólks á sex bílum til hjálpar á Steingrímsfjarðarheiði í ófærð og illviðri. Vegna veðurs hætti Vegagerðin mokstri fyrr um kvöldið þar sem jafn hraðan skóf í ruðningana og skyggni var afleitt.

Vegagerðin hvatti vegfarendur til að reyna að komast í húsaskjól og benti þeim meðal annars á gistinguna í Reykjanesi. Aðgerð björgunarsveitarmanna lauk um klukkan hálf tólf.

Fyrr um kvöldið höfðu björgunarsveitarmenn frá Þingeyri og Flateyri aðstoðað fólk í fimm bílum, sem sátu fastir á Gemlufallsheiði. Óvíst er hvenær vegir verða færir á ný vestra, vegna slæmrar veðurspár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×