Innlent

„Mikið að gera enda göturnar ógeðslegar“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Bílar borgarbúa eru grútskítugir um þessar mundir.
Bílar borgarbúa eru grútskítugir um þessar mundir. mynd/gva
Brjálað er að gera á bílaþvottastöðvum borgarinnar enda þykir bílafloti íbúa á höfuðborgarsvæðinu með skítugra móti. Samkvæmt heimildum Vísis var um klukkutíma bið á einhverjum bílaþvottastöðvum um helgina.

Brynjar Þorgeirsson, framkvæmdastjóri bón- og bílaþvottastöðvarinnar Kópsson í Kópavogi, segir gríðarlega mikið að gera á stöðinni. „Það er búið að vera mikil traffík í vetur og sérstaklega undanfarna daga hefur verið mikið að gera enda göturnar ógeðslegar.“

Sömu sögu hefur Róbert Reynisson að segja, en hann er framkvæmdastjóri bílaþvottastöðvarinnar Lindarinnar í Bæjarlind. „Þetta er búið að vera mjög mikið undanfarið og bílarnir eru mjög skítugir.“

Róbert mælir ekki með því að ökumenn geymi bílaþvottinn þó að bílarnir geti orðið óhreinir fljótt aftur. Saltið og tjaran geti eyðilagt lakkið. „Ég mæli hiklaust með að fólk geymi þvottinn ekki of lengi. Svo verða menn líka svo miklu fallegri og bjartsýnni þegar þeir eru á hreinum bíl.“

Páll Mar Magnússon, rekstrarstjóri Löðurs, segir raðir hafa myndast á svokölluðum snertilausum þvottastöðvum Löðurs en að á þvottastöð þeirra við Fiskislóð sé lítil sem engin bið. „Við stöndum á haus akkúrat núna,“ segir Páll en bætir því við að það gangi vel.

„Það var slabbtíð í byrjum desember en núna er búið að vera nánast þurrt frá því fyrir jól. Þá þornar salt og tjara á bílunum og þeir verða extra ógeðslegir. Við viljum því impra á því við fólk að þvo bílana og verja þá með bóni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×