Innlent

Brennur um allt land - Jólin kvödd

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
mynd/Pjetur Sigurðsson
Þrettándabrennur- og hátíðir eru haldnar víðsvegar um landið í kvöld. Álfar og tröll munu skemmta ungum sem öldnum og flugeldum verður skotið upp til þess að kveðja jólin.

Á Akranesi var haldin árleg þrettándabrenna á Akranesi. Að brennu og flugeldasýningu loknum er gestum boðið í íþróttahúsið á Jaðarsbökkum en þar verður kjöri á íþróttamanni Akraness árið 2013 lýst.

Í Vesturbænum í Reykjavík var haldin þrettándahátíð líkt og undanfarin ár. Hátíðin hófst við KR-heimilið og þaðan gekk fólk saman niður að Ægisíðu þar sem haldin var brenna.

Þrettándagleði sem halda átti á Ísafirði í kvöld var aftur á móti frestað vegna slæmrar veðurspár. Staðan verður skoðuð á fimmtudaginn þar sem veðurspá er svipuð næstu daga.

Björgunarsveitin Dýri og íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri voru með sína árlegu gleði í dag. Þar átti að spila á harmonikkur og álfar voru beðnir um að mæta í sínu fínasta pússi.

Eyjamenn héldu sína þrettándagleði á föstudaginn var. Þar er mikið lagt í hátíðina og á hún sé langa hefð. Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sagði í pistli á vefsíðunni Eyjarnet að á bakvið hátíðina lægi mikil vinna og óhætt væri að fullyrða að sjálfboðaliða yrðu taldir í hundruðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×