Innlent

Slökkviliðsmenn komast ekki að brunahönum á Flateyri

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Úr safni, snjómokstur á Vestfjörðum.
Úr safni, snjómokstur á Vestfjörðum. mynd/Stefán Karlsson
Mikil óánægja er meðal íbúa á Flateyri með snjómokstur í bænum. Flestar götur munu vera ófærar. Bæjarins besta á Ísafirði greindi frá þessu á vefsíðu sinni í dag. Í samtali við Bæjarins besta sagði Guðmundur Hagalínsson, íbúi á Flateyri, að fyrirkomulagið á snjómokstri í bænum væri ótækt.

Sá sem sér um snjómoksturinn búi ekki á Flateyri og þegar Hvilftarströndin sé ófær eða snjóflóð falli á veginn, komist hann ekki til Flateyrar. Guðmundur hefur farið með þetta mál fyrir sýslumann enda sé grafalvarlegt mál ef flestar götur séu ófærar í lengri tíma.

Ef kvikna myndi í myndu slökkviliðsmenn ekki komast að brunahönum og sömuleiðis séu sjúkraflutningar mjög erfiðir. Það telur hann vera almannavarnarmál.

Að hans mati er þörf á því að snjómokstursmaðurinn búi á Flateyri þegar það viðrar eins og gert hefur undanfarnar vikur. Guðmundur er formaður Félags eldri borgara í Önundarfirði og hann fundaði með bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar og félagsmálanefnd vegna þessa í fyrra. Þá sögðust þau hafa fullan skilning á þessu en svo hafi ekkert verið gert.

Valgeir Ólafsson sem einnig er íbúi á Flateyri tekur í sama streng og Guðmundur. Hann segist sætta sig við að vera lokaður inni í nokkra daga þegar mesta veðrið gengur yfir. En nú hafi lítið bætt í snjó frá áramótum en þó sé enn ófært um götur bæjarins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×